Vilt þú móta göngugötur?

Mannlíf Samgöngur

Fólk á göngu niður Laugaveg á sólríkum degi.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar auglýsir eftir þverfaglegum og skapandi teymum til að taka þátt í mótun göngugötuhluta Laugavegar, Vegamótastígs og Skólavörðustígs með þarfir notenda og rekstraraðila í fyrirrúmi. Verkið verður unnið í samstarfi við samræmingarhönnuð verkefnisins 9 skref.

Þrír hönnunarhópar verða valdir til samstarfs en í umsóknarferli boðar Reykjavíkurborg til viðtala. Óskað er eftir að hvert teymi samanstandi af þremur einstaklingum frá mismunandi starfsstéttum. Listinn er ekki tæmandi en í hópnum gæti verið arkitekt, innanhússarkitekt, landslagsarkitekt, iðnhönnuður, upplifunarhönnuður, grafískur hönnuður, myndlistarmaður eða mannfræðingur.

Verkefnið felst í að hanna göturýmið með fjölþætt notagildi þess í huga í samstarfi við hagsmunaaðila. Lögð er áhersla á að staðarandi og leikgleði fái að njóta sín. Hugað verður sérstaklega að lausnum er varða aðgengi allra, gróðurvæðingu, útfærslu götugagna og lýsingu. Forhönnun og viðamikil greiningarvinna liggur fyrir.

Skilafrestur umsókna er til 11. nóvember.