Vesturmiðstöð flytur tímabundið í Austurstræti

Starfsfólk Vesturmiðstöðvar fyrir framan nýtt húsnæði.
Hópur af starfsfólki Vesturmiðstöðvar stendur fyrir framan nýjar skrifstofur í Austurstræti.

Öll starfsemi Vesturmiðstöðvar hefur tímabundið verið flutt frá Laugavegi 77 í Austurstræti 8–10. Miðstöðin er ein fjögurra í Reykjavík, þar sem íbúar og starfsfólk Reykjavíkurborgar getur fengið þjónustu, upplýsingar, stuðning og ráðgjöf á sviði velferðar-, skóla- og frístundamála. 

Þau hverfi sem heyra undir Vesturmiðstöð eru Vesturbær, Miðborg og Hlíðar. Í heild hafa um 135 einstaklingar starfsstöð í Vesturmiðstöð, auk þess að forstöðumenn í húsnæði á vegum velferðarsviðs, skólastjórar og leikskólastjórar koma þangað reglulega til funda og samráðs. 

Til stendur að ráðast í gagngerar endurbætur á húsnæðinu á Laugavegi 77 en það er í eigu Reita. Áætlað er að framkvæmdir þar standi yfir í tvö ár og að starfsemi miðstöðvarinnar flytjist öll aftur þangað að þeim tíma liðnum. „Það verður gott að koma aftur í nýtt og endurbætt húsnæði þegar þessum framkvæmdum lýkur en þangað til munum við gera það allra besta úr þessum aðstæðum og taka vel á móti fólki í Austurstrætinu,“ segir Sigþrúður. „Starfsfólk Vesturmiðstöðvar á hrós skilið fyrir að vera sveigjanlegt og úrræðagott, svo þau sem sækja þjónustu til okkar finni sem minnst fyrir þessu,“ segir Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar. 

Gengið er inn í Vesturmiðstöð frá Vallarstræti. Þjónustuskáli hennar er á fjórðu hæð, þar sem er verið að leggja lokahönd á að setja upp viðtalsherbergi. Á þriðju og fimmtu hæð verður skrifstofurými og sameiginleg rými, auk þess að hægt verður að eiga stærri fundi í kjallara hússins. 

Frekari upplýsingar um miðstöðvar borgarinnar og tilgang þeirra.