Verndum börnin í sumar

Skóli og frístund

Börn úti

Enn einu skólaárinu er lokið og ævintýri sumarsins taka við. Ýmsar hættur sem geta fylgt ævintýrum sumarsins þegar börn og unglingar fá aukinn frítíma. Mikilvægt er að öll sem önnumst leik- og grunnskólabörn tökum höndum saman og veitum stuðning og hvatningu til félagslegrar virkni í öruggu umhverfi. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ákveðnir þættir hafa jákvæð áhrif og vernda börn og unglinga gegn áhættuhegðun.

Information in different languages

Verndandi þættir:

  • Samvera foreldra og barna.
  • Börn fái nægan svefn.
  • Foreldrar sýni umhyggju og setji skýr mörk.
  • Foreldrar þekki vini barna sinna og foreldra þeirra.
  • Börn taki þátt í skipulögðu frístundastarfi.
  • Lögbundinn útivistartími sé virtur.
  • Skýr afstaða foreldra gegn neyslu barna og unglinga á áfengi, vímuefnum, tóbaki, nikótínpúðum, rafrettum og koffíndrykkjum.
  • Foreldrar leyfi ekki eftirlitslaus partý.
  • Samstarf, traust og þátttaka í foreldrastarfi, t.d. farsældarsáttmála, bekkjarsamningum, foreldraráðum og foreldrarölti.

     

Leyfum börnum á öllum aldri að taka þátt í ævintýrum sumarsins með okkur, verum með þeim, ræðum við þau og takmörkum skjánotkun.

Skjátími

Mikilvægt er að fylgja eftir reglum og koma sér saman um viðmið um snjalltækja- og tölvunotkun barna. Aldurstakmark á samfélagsmiðlum er að minnsta kosti 13 ára. Virðum aldurstakmörk og minnkum þannig líkur á að börn sjái eða upplifi eitthvað sem gæti haft slæm áhrif á þau. 

Fræðsla

Rannsóknir benda til þess að með fræðslu og samtakamætti sé að nást árangur varðandi líðan barna, þannig að heldur fleiri eru að meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða en undanfarin ár. Einnig hefur náðst árangur varðandi klámáhorf unglinga, en mikilvægt er að halda áfram með öfluga kynfræðslu bæði í skóla- og frístundastarfi og heima. 

Foreldra hvattir til að vera vakandi fyrir áfengisneyslu

Undanfarin sumur hefur borið á því að unglingar sem eru að byrja í framhaldsskóla hittist í eftirlitslausum partýum, s.s. á útivistarsvæðum í Reykjavík og nágrenni. Þessir viðburðir eru hvorki á vegum framhaldsskóla né félagsmiðstöðva. Þar hefur borið á talsverðri áfengisdrykkju og eru foreldrar hvattir til þess að vera vakandi fyrir þessu. Mikilvægt er að sporna sem lengst við því að ungmennin okkar byrji að neyta áfengis eða annarra vímuefna.

Með verndandi þættina að leiðarljósi getum við í sameiningu tekist á við stórar áskoranir með góðum árangri. Ræðum þessi mál við börnin, vini barnanna og foreldra þeirra og leggjum okkar af mörkum við að auka farsæld barna.