Verkefni tengd ungmennum fengu hæstu styrki velferðarráðs

Velferð

""

Ár hvert veitir velferðarráð hagsmuna- og félagasamtökum styrki til verkefna á sviði velferðarmála.  Styrkþegar, sem hlotið hafa styrk fyrir árið 2019, veittu þeim viðtöku í Iðnó í dag.  

Árlega setur velferðarráð sér ákveðnar áherslur vegna úthlutun styrkja og að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem bæta líðan og hag barna- og ungmenna og fjölskyldna þeirra.  Einnig lagði velferðarráð áherslu á verkefni sem stuðla að geðheilbrigði, virkni og hvers konar atvinnu- og samfélagsþátttöku.

Veittir voru styrkir fyrir einstök verkefni og starf félaga- og hagsmunasamtaka var styrkt til eins eða þriggja ára.

Minningarsjóður Bergs Snæs fær níu og hálfa milljón til að stofna stuðningssetur í höfðuborginni fyrir ungt fólk í vanda. Minningarsjóður Einars Darra, Ég á bara eitt líf, fær níu milljónir í baráttu um vitundarvakningu og forvarnir gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Meðal verkefna Ég á bara eitt líf er að halda þjóðfund með ungu fólki um hagi og líðan þess. Fundurinn mun veita borginni mikilvægar upplýsingar um hvaða leiðir ungt fólk sér til bæta lífsskilyrði sín.

Hjálpræðisherinn fékk tvo styrki til verkefna alls tvær og hálfa milljón. Milljón fyrir Opið hús eða mat, kaffi og spjall fyrir þá sem eru einmana og utangarðs og eina og hálfa milljón fyrir heimanámsaðstoð fyrir börn og unglinga.

Handaband fékk eina milljón fyrir þróunarverkefni sem gengur út á að bjóða upp á virkniúrræði, skapandi vinnustofur, á félagsmiðstöðvum og samfélagshúsum Reykjavíkurborgar.

Rauði krossinn fékk milljón til Heimsóknarvina og Styrktarsjóður Ljósbrots fær milljón fyrir lýðheilsustöðina Pepp Upp eða Framtíð til farsældar. Verkefnið er sérstaklega sniðið að ungmennum sem glíma við depurð, kvíða, einmannaleika og fíknivanda en vilja ná tökum á lífinu og byggja sig upp.

Fimm félagasamtök fá styrk til þriggja ára, AE Starfsendurhæfing, Geðhjálp, Hjálparstarf kirkjunnar, Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu og klúbburinn Geysir. AE starfsendurhæfing fær þar hæsta styrkinn níu milljónir sex hundruð og fimmtíu þúsund á ári fyrir Hlutverkasetur.

Alls bárust 52 umsóknir um styrki velferðarráðs en ekki var unnt að koma til móts við þær allar í ár og samþykkt var að veita styrki til alls 35 verkefna. Við afhendingu styrkjanna sagði formaður velferðarráðs, Heiða Björg Hilmisdóttir, að metnaður einkenndi umsóknir og vilji umsækjenda til að stuðla að góðri þjónustu til umbjóðenda sinna sem og að stuðla að bættri líðan og högum borgarbúa almennt.

Með styrkjaúthlutunum er leitast við að efla samstarf og styðja við starfsemi frjálsra félaga- og hagsmunasamtaka. Þegar horft er til styrkþega er áhugavert að sjá að íbúar Reykjavíkur af erlendum uppruna, innflytjendur og flóttafólk eru meðal þeirra sem nýta sér ráðgjöf og stuðning þessara aðila í auknum mæli, sem dæmi má nefna Klúbbinn Geysi, Hlutverkasetur, Hugarafl og Hjálparstarf kirkjunnar.

Styrkveitingar eru samþykktar í velferðarráði að fenginni tillögu styrkjanefndar sem í sátu Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, Egill Þór Jónsson fulltrúi sjálfstæðisflokksins, og Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri ráðgjafaþjónustu á velferðarsviði. Eins og áður segir bárust ráðinu 52 umsóknir um styrki á þessu ári en alls voru til úthlutunar 87.931.894 m.kr., en bundið var fyrir í samningum til þriggja ára 50,6 m.kr.

Listi yfir alla úthlutaða styrki:

ADHD Samtökin Þýðingar á ensku og pólsku á bæklingum um ADHD.

kr. 550.000.-

ADHD Samtökin

Bæklingur um systkini og ADHD.

Kr. 300.000.-

Barnaheill

Innlend verkefni Barnaheilla. Innlent starf Barnaheilla samanstendur af málsvarahlutverki, réttindabaráttu, vernd barna gegn hverskyns ofbeldi og vanrækslu, forvörnum og fræðslu.

Kr. 700.000.-

Einhverfusamtökin

Stuðningshópur fyrir einhverfa í Reykjavík. Einhverfusamtökin reka stuðningshópa fyrir unglinga og fullorðna á einhverfurófi. Markmiðið er að efla félagsfærni og þátttöku í samfélaginu.

Kr. 500.000.-

Handaband

Handaband er þróunarverkefni sem gengur út á að bjóða upp á nýtt virkniúrræði, skapandi vinnustofur, á félagsmiðstöðvum og samfélagshúsum Reykjavíkurborgar.

Kr. 1.000.000.-

Hjálparstarf kirkjunnar

Töskur með tilgang. Virkniverkefni fyrir erlendar konur sem hittast vikulega og sauma fjölnota innkaupapoka og eiga saman ánægjulega og gefandi stund

Kr. 500.000.-

Hjálpræðisherinn

Opið hús. Matur, kaffi og spjall fyrir einmana og utangarðs.

Kr. 1.000.000.-

Hjálpræðisherinn

Heimanámsaðstoð fyrir börn og unglinga.

Kr. 1.500.000.-

Höndin

Sjálfstyrking og samhjálp. Sjálfstyrking fyrir einstaklinga eftir áföll til að efla þá, greina vanda og benda á lausnir. Efla félagslega færni og atvinnuþátttöku. 

Kr. 500.000.-

Hörður Jónasson /Vinaskákfélagið

Aðalmarkmið Vinaskákfélagins er að starfa að krafti fyrir fólk með geðraskanir og öryrkja.

Kr. 100.000.-

Kvenfélag Árbæjarsóknar

Árpokinn - saumum saman . Verkefnið er samstarf Kvenfélags Árbæjarkirkju, Bókasafnsins í Árbæ, Félagsmiðstöðvarinnar Hraunbæ 105 og Þjónustumiðstöðar Árbæjar. Því er meðal annars ætlað að draga úr plastpokanotkun með því að endurnýta efni og fatnað sem hægt er að sauma margnota poka úr.

Kr. 50.000.-

María Jónsdóttir

Fræðslumyndband - kynheilbrigði. 2 Fræðslumyndbönd annars vegar um sambönd og snertingu og hinsvegar um samþykki ætlað fyrir fólk með frávik í taugaþroska.

Kr. 250.000.-

Ný dögun

Fræðsla og hópastarf fyrir aðstandendur vegna fíknidauða. Starfið felur í sér fræðslukvöld og hópastarf fyrir aðstandendur þeirra sem hafa misst einhvern nákominn vegna fíkniefnaneyslu.

Kr. 300.000.-

Rauði krossinn /Heimsóknarvinir

Sjálfboðaliðar, karlar og konur frá 18 ára aldri heimsækja félagslega einangraða einstaklinga einu sinni í viku í klukkustund í senn.

Kr. 1.000.000.-

Samvera og súpa

Góður félagsskapur sem vinnur gegn félagslegri einangrun.

Kr. 200.000.-

Styrktarsjóður Ljósbrots - lýðheilsustöð

Pepp Upp - Framtíð til farsældar. Sérsniðið að ungmennum sem glíma við depurð, kvíða, einmannaleika, fíknivanda ofl. sem vilja ná tökum á lífinu og byggja sig upp.

Kr. 1.000.000.-

Þóra Jónsdóttir

Syngjum og öndum saman. Boðnar verða samverustundir á stofnunum borgarinnar, sambýlum, vistheimilum og annars staðar þar sem börn eða fullorðnir dvelja.

Kr. 500.000.-

Söngfuglar, kór félagsstarfs aldraðra

Söngæfingar og heimsóknir á sjúkrastofnanir og félagsmiðstöðvar á starfsárinu.

Kr. 100.000

Eins árs samningar:

Blindrafélagið

Áframhaldandi samningur vegna þjónustu við blinda og sjónskerta. Markmið Blindrafélagsins er að hjálpa blindum og sjónskertum einstaklingum stuðning til aukins sjálfstæði.

Kr. 3.000.000.-

Félag heyrnalausra

Þjónusta við heyrnalausa aldraða og einstaklinga á táknmáli vegna einangrunar við almenna þjónustu og samskipti,CODA verkefnið og almenn félagsaðstaða.

Kr. 4.600.000.-

Gigtarfélag Íslands

Félagsstarf, jafningjafræðsla og ráðgjöf. Stuðningur við gigtarbörn í leik-, grunn- og framhaldsskólum í borginni, foreldra og starfsfólk. Fræðsluerindi fyrir borgarstarfsmenn.

Kr. 1.000.000.-

Hjólakraftur

Hjól notað til að ná fólki frá vanvirkni til virkni, efla félagslega og andlega heilsu samhliða þeirri líkamlegu.

Kr. 4.000.000.-

Hugarafl

Valdefling/starfsemi í Hugarafli. Utanumhald og þjónusta við íbúa Reykjavíkur sem leita til Hugarafls til stuðnings í bataferli sínu.

Kr. 7.000.000.-

Minningarsjóður Einars Darra

Ég á bara eitt líf. Baráttan Ég á bara eitt líf, berst með vitundarvakningu og forvörnum gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja.

ótilgreint

Kr. 9.000.000.-

Minningarsjóður Bergs Snæs

Samtökin munu setja á stofn stuðningssetur fyrir ungt fólk í vanda. Stuðningssetrið verður staðsett á

höfuðborgarsvæðinu.

Kr. 9.500.000.-

MS-félag Íslands

Þjónustusamningur við ráðgjafaþjónustu. Félagsráðgjafi veitir einstaklingum með MS-sjúkdóminn og fjölskyldum þeirra stuðning og ráðgjöf til að takast á við breyttar félagslegar aðstæður sem upp geta komið í kjölfar veikinda.

Kr. 1.200.000.-

Mæðrastyrksnefnd

Aðstoð við bágstadda . Sótt er um styrk til að geta keypt mat og fleira tilheyrandi til að gefa bágstöddum.

Kr. 1.500.000.-

Pieta Ísland, félagasamtök

Vinna/forvarnir gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Þjónusta við fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaða og forvarnarvinna. Stuðningur fyrir aðstandendur.

Kr. 3.500.000.-

Rauði krossinn / Frú Ragnheiður

Frú Ragnheiður - Skaðaminnkun. Heilbrigðisaðstoð og nálaskiptaþjónusta fyrir jaðarsetta einstaklinga samkvæmt hugmyndafræði skaðaminnkunar. Sjálfboðaliðar fara á sérútbúnum bíl um borgina sex daga í viku.

Kr. 4.000.000.-

Vímulaus æska - foreldrahús

Yfirskrift foreldrahúss er fjölskylduráðgjöf og námskeið. Þar er starfandi klínískur sálfræðingur í hálfu stöðugildi og ICDAC vímuefna- og fjölskylduráðgjafi í fullu starfi. Auk þess eru listmeðferðarfræðingur, fjölskyldumeðferðarfræðingur og annað fagfólk verkefnaráðið

Kr. 6.000.000.-

Þriggja ára samningar:

AE Starfsendurhæfing

Hlutverkasetur. Fræðsla ráðgjöf og jafningjastuðningur. Atvinnuþáttta og samfélagsþátttaka.

Kr. 9.650.000.- ári

Geðhjálp

Geðhjálp til betra lífs. Verkefnið felur í sér að bæta þjónustu og tryggja réttindi notenda geðheilbrigðisþjónustunnar og aðstandenda þeirra og berjast gegn fordómum.

Kr. 3.000.000.- á ári.

Hjálparstarf kirkjunnar

Út úr vítahring fátæktar og félagslegrar einangrunar, hjálp til sjálfshjálpar.

Kr. 2.000.000.- ári

Sjálfsbjörg höfuðborgarsvæðinu

Félagsstarf í félagsheimili okkar að Hátúni 12 og í Krika við Elliðarvatn og ráðgjöf til allra öryrkja.

Kr. 1.000.000.- á ári

Styrkarfélag klúbbsins Geysis

Virkni verkefni fyrir einstaklinga með geðfötlun sem búa í búsetukjörnum og búsetuendurhæfingarheimilum í Reykjavík.

Kr. 1.000.000.- á ári.