„Verkefni sem bjargar mannslífum“

Samson Haileselassie Habte var í Reykjavík í tvö ár á vegum skjólborgarverkefnisins ICORN.
Samson Haileselassie Habte, landflótta blaðamaður frá Erítresu og skjólstæðingur ICORN, stillir sér upp við súlu á Ráðhúsinu. Í bakgrunni er Fríkirkjuvegur og Hallgrímskirkja.

„ICORN er verkefni sem bjargar mannslífum. Það bjargaði mér og ég á ekki nógu sterk lýsingarorð til að tjá þakklæti mitt,“ segir Samson Haileselassie Habte, sem dvalið hefur í Reykjavík undanfarin tvö ár á vegum skjólborgarverkefnisins ICORN.

Reykjavíkurborg gerðist aðili að ICORN (International Cities of Refuge Network) árið 2010, en ICORN eru samtök borga víðs vegar um heim sem bjóða listafólki, rithöfundum, talsfólki mannréttinda, blaðafólki og tónlistarfólki sem er í hættu í heimalandi sínu, skjól. Markmiðið er að tryggja málfrelsi, verja lýðræðisleg gildi og sýna samstöðu þvert á landamæri. Hátt á áttunda tug borga víðs vegar um heim tilheyra tengslanetinu og yfir 200 manns hafa hlotið skjól í boði þessara borga. Reykjavíkurborg hefur hýst fjóra skjólstæðinga á vegum verkefnisins og meðan á dvölinni stendur er þeim tryggður öruggur dvalarstaður og efnahagslegt öryggi. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar heldur utan um verkefnið ásamt starfshópi skipuðum af borgarstjóra. 

Landflótta blaðafólk upplýsir samlanda sína 

Samson kom til Reykjavíkur árið 2021, sem landflótta blaðamaður frá Erítreu. Samkvæmt lista samtakanna Fréttamenn án landamæra (e. Reporters Without Borders) nýtur Erítrea einna minnsta fjölmiðlafrelsis í heiminum. Í alþjóðlegum skýrslum hefur verið vakin athygli á gífurlegum mannréttindabrotum í landinu en stjórnvöld stýra alfarið hvaða upplýsingar komast í fjölmiðla og þau sem birta ósamþykkt efni eiga á hættu að fá fangelsisdóm. Árið 2013 gerðu uppreisnarmenn misheppnaða tilraun til að taka yfir upplýsingaráðuneyti landsins og var margt blaðafólk handtekið í kjölfarið. Samson var í þeim hópi og eftir að hafa hlotið afar slæma meðferð í haldi lögreglu dögum saman ákvað hann að flýja land. Við tók langur tími á flótta en Samson hefur allan tímann unnið ötullega að því að vekja athygli á mannréttindabrotum í heimalandi sínu og ná fréttir sem hann og um 15 eritresk landflótta starfssystkini hans senda í gegnum gervihnött til Erítreu, til um 70 prósent þjóðarinnar. Um er að ræða fjölmiðilinn Erisat, sem rekur bæði sjónvarps- og útvarpsstöð, en Samson er fréttastjóri miðilsins og kveðst hann oft vinna 16-17 tíma langa vinnudaga. 

Óvænt sending frá Ástralíu 

Árið 2019 bauð Reykjavíkurborg Samson skjól til tveggja ára í gegnum ICORN verkefnið og kom hann til Reykjavíkur í mars árið 2021. Landvistarleyfi hans hér á landi rann út nú í maímánuði og lengi vissi Samson ekki hvað tæki við hjá honum að dvölinni hér lokinni. Skömmu áður en leyfið rann út barst honum hins vegar óvænt bréf frá áströlskum stjórnvöldum, þess efnis að hann hefði fengið hæli í áströlsku borginni Brisbane. Þetta voru merkileg tíðindi eftir tíu ár á flótta en um var að ræða sex ára gamla hælisumsókn í Ástralíu sem velkst hafði um í kerfinu svo lengi að hann var hættur að hugsa um hana eða búast við nokkurri niðurstöðu. 

Óvissan erfið 

„Nú er ég að fara til Ástralíu og það er algjört kraftaverk,“ segir Samson, en við hittum hann skömmu áður en hann lagði af stað til nýrra heimkynna sinna. „Ég hafði nánast gleymt þessari umsókn en svo var óvænt haft samband við mig. Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ segir hann og léttirinn er augljós. Ástralskur blaðamaður hjálpaði Samson að skila inn hælisumsókninni árið 2017, þegar Samson var í felum í Úganda. Hann hefur ekki komið áður til Ástralíu, enda er Ísland fyrsta landið sem hann heimsækir fyrir utan Afríku, en framundan er að byggja upp nýtt líf í Brisbane. „Þetta er dvalarleyfi af mannúðarástæðum og ég geri ráð fyrir að setjast þarna að. Nú get ég loksins sett mér langtímamarkmið, ég veit hvar ég verð og hvað ég verð að gera á morgun og hinn!“ segir hann. „Ég get unnið vinnuna mína hvar sem er og mér leið mjög vel í Reykjavík. Það eina sem var erfitt var að vita ekki hvað tæki við eftir þessi tvö ár þar, það var mjög óþægilegt. Nú hef ég fundið öryggi sem er frábær tilfinning eftir mörg ár í felum. Ég er óendanlega þakklátur fyrir ICORN verkefnið og hjálpina sem ég fékk en gallinn við verkefnið er að vita ekki hvað tekur við þegar skjólborgartímanum lýkur. Óvissan hefur mikil áhrif á fólk og það er erfitt að lifa með henni. Ég var heppinn og fékk þetta kraftaverk frá Ástralíu, en hvað um öll hin? Ég vil koma þessu á framfæri þótt verkefnið sé frábært og bjargi mörgum mannslífum.“ 

Vill koma þakklæti á framfæri 

Samson er nú kominn til Brisbane og langar hann að koma á framfæri kærum þökkum til „reykvískrar fjölskyldu sinnar“, eins og hann kallar vini og velgjörðarfólk sitt hér í borg. „Síðast en ekki sitt vil ég þakka ICORN fyrir tækifærið og dásamlega upplifun. Þetta verkefni bjargar mannslífum, það bjargaði mér.“ 

Þess má geta að í Stundinni (nú Heimildinni) var fjallað ítarlega um sögu Samsons og ástandið í Erítreu.