Vel á fimmta þúsund tóku þátt í MenntaStefnumóti

Skóli og frístund

MenntaStefumót 2024

Á fimmta þúsund tóku þátt í sameiginlegum starfsdegi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur sem fram fór föstudaginn 17. maí. MenntaStefnumótið er uppskeruhátíð þróunar – og nýsköpunarstarfs sem sprottið er upp úr skóla- og frístundastarfi borgarinnar. 

Markmið með deginum og mótinu var að skapa vettvang til að miðla því fjölbreytta starfi sem orðið hefur til í tengslum við innleiðingu menntastefnunnar og skapa samtal um menntun til framtíðar.

MenntaStefumót 2024

Fræðsla um hegðun barna vinsæl

Fyrir hádegi var dagskrá í streymi sem ekki aðeins var opin starfsfólki skóla- og frístundasviðs heldur öllum áhugasömum. Að streyminu loknu var opin stafræn fræðsla þar sem þátttakendur gátu valið úr 38 spennandi fræðsluerindum. Þannig voru yfir 200 tæki sem tengdu sig inn á fræðslu um krefjandi hegðun barna og samspil kennara og stuðningsfulltrúa. Um 120 á fræðslu um íslensku sem annað tungumál og annað eins á fræðslu um góð samskipti og samvinnu nemenda. Þá voru nærri 150 tæki sem tengd voru inn á fræðslu leik, nám og gleði. Gera má ráð fyrir að talsvert fleiri einstaklingar séu á bak við hverja tölu þar sem algengt er að samstarfsfólk safnist saman til að horfa.   

MenntaStefumót 2024

Mikið um að vera úti í borgarhlutunum

Eftir hádegi var svo að finna málstofur og fræðslu á yfir 30 stöðum úti í borgarhlutunum. Í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum voru til að mynda 50 málstofur í Hagaskóla og Melaskóla fyrir starfsstaði skóla- og frístundastarfs í hverfinu. Í málstofunum miðlaði fagfólk hverfisins hverfisins áhrifaríkum verkefnum, aðferðafræði, hugmyndum og vinnulagi sem hefur gefist vel. Þátttakan var góð og starfsfólkið naut samverunnar og ræktaði tengslin og fundu sig í öflugri liðsheild.

Starfsfólk grunnskóla í Austurmiðstöð hittast eftir hádegi í faglegum umræðuhópum þar sem þeir deila því sem þeir hafa verið að vinna að í sínu starfi. Austurmiðstöð tilheyra, Grafarvogur, Kjalarnes, Grafarholt, Úlfarsárdalur, Árbær og Norðlingaholt og var málstofum og fræðslu dreift á ellefu staði í hverfunum.

Í hverfum sem tilheyra Norðurmiðstöð og Suðurmiðstöð var dagskrá dreift um hverfin. Þá hittust allir yfirmenn eldhúsa í grunnskólum borgarinnar í Rimaskóla og íþrótta- og sundkennarar voru saman í vinnusmiðju í safnaðarheimili Háteigskirkju.