Veggjalist í borginni- falinn fjársjóður

Umhverfi Menning og listir

""

Veggjalist á sér óralanga sögu og Reykjavík nútímans er rík af fallegum vegglistaverkum. Þessi verk eru allt í kringum okkur en í daglegu amstri veitum við þeim kannski of sjaldan almennilega athygli. Því höfum við tekið saman nokkurs konar fjársjóðskort, sem styðjast má við ef fólk vill finna og upplifa mörg þessara áhugaverðu og skemmtilegu listaverka.

„Veggjalist getur gert ótrúlega margt jákvætt ef hún er falleg og vel unnin,“ segir Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður og starfandi deildarstjóri Borgarhönnunar. „Vegglistaverk skapa upplifun í borgarrýminu, svo þegar þú gengur um kemur brot í þetta hversdagslega. Þetta getur líka haft þau áhrif að þú stöðvar við listina og þá kannski stöðva fleiri, því fólk laðar að fólk. Þá ertu í raun kominn með dvalarsvæði á stað sem er það ekki venjulega. Þú sérð og hittir aðra og þetta myndar líf á götunum. Þetta hefur ótrúlega mikil áhrif.“

Greinarhöfundur getur svo sannarlega tekið undir þetta. Við myndatökur á veggjalist á yfir 40 stöðum í borginni gerðist það undantekningarlítið að aðrir vegfarendur hægðu á sér eða stöðvuðu, virtu listina fyrir sér, spjölluðu eða tóku myndir.

Ekkert grín að mála á svona stóra fleti

Rebekka segir vegglistaverkum hafa fjölgað í Reykjavík síðustu ár. „Þetta var meira áberandi úti í heimi og mér finnst koma aukinn stórborgarbragur með veggjalistinni. Það eru virkilega falleg verk á húsgöflum víða í borginni. Þetta lífgar upp á og brýtur oft upp gráleitt umhverfi,“ segir hún.

Viðbrögð almennings við fjölgun vegglistaverka hafa verið góð. „Ég sé á samfélagsmiðlum, til dæmis instagram, að fólk póstar myndum af þessum verkum. Ég geri það oft sjálf af því að þetta er skemmtilegt, eða mér finnst það alla vega. Þetta styður líka almennt við menningu og list í borginni. Þetta er ekki bara augnayndi heldur er hér um að ræða listamenn sem berskjalda sína list á risaflötum. Það er ekkert grín að mála á svona stóra fleti.“

Rebekka bendir á að framboð gluggalausra veggja sé takmarkað, lítið sé um að slíkar úthliðar séu byggðar í dag. „Flest verkin eru því í miðborginni, þar sem byggðin er þétt og húsin eldri, en svo hefur þetta líka færst út í iðnaðarhverfin og á fleiri svæði,“ segir hún. Þannig leit til dæmis nýtt, risastórt verk dagsins ljós við Sundahöfn nú fyrir skömmu.

Liður í að skapa betri og fallegri borg

Rebekka bendir á að veggjalist og veggjakrot eigi ekkert sameiginlegt. Listin er unnin í samráði við húseigendur og borgaryfirvöld þegar það á við, en veggjakrot er með öllu óleyfilegt og hefur umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar unnið náið með rekstrar- og húseigendum að því að mála yfir skemmdarverk af völdum veggjakrots. Sumarið 2018 var þekja veggjakrots í miðborginni mæld og reyndist hún vera um 3052 m2. Þekja veggjalistar hefur hins vegar ekki verið mæld.

Reglulega er haft samband við borgina vegna áhuga fólks á veggjalist. „Oft hafa listamenn samband en okkur berast líka fyrirspurnir frá íbúum sem vilja fá listaverk á húsveggi eða aðra fleti sem þeir hafa til umráða,“ segir Rebekka. „Borgin er yfirleitt ekki með veggi til afnota, en Reykjavíkurborg er þjónustufyrirtæki og við þjónustum borgarbúa og aðra. Við tökum alltaf vel í fyrirspurnir og reynum að beina fólki í rétta átt. Oft getum við líka tengt fólk saman, t.d. listamenn og fólk sem vill fá list á veggi sem það á. Við höfum líka komið með hugmyndir og bent listamönnum á hentuga veggi enda er þetta okkar hagur. Verkefni okkar hjá Borgarhönnun er að skapa betri og fallegri borg og þetta er liður í því. Núna í sumar styrktum við sem dæmi svona framtak sem okkur leist vel á, í gegnum verkefnið okkar Torg í biðstöðu.“

Listin fær okkur til að líta upp

Rebekka og greinarhöfundur mæltu sér mót á Ægisgötu 7, við listaverkið „Heavy Stones Fear No Weather“ eftir Wes21 og Onur. En af hverju valdi Rebekka þetta tiltekna verk?

„Mér finnst það svo rosalega íslenskt. Það fangar mig alltaf og er í miklu uppáhaldi. Við að horfa á það fer ég alveg inn í landslagið okkar, kraftinn í náttúrunni og fólkinu, seigluna og allt,“ segir hún. „Verkið er ekki mjög sýnilegt og maður þarf að ganga upp götuna í suðurátt til að koma auga á það.“

Rebekka segir vitundina um að þessi listaverk séu til staðar kannski fá fólk til að líta aðeins upp og veita umhverfinu meiri athygli. „Við erum svo oft bara í eigin heimi að horfa á tærnar á okkur,“ segir hún brosandi. „Þetta fær okkur til að setja hökuna aðeins upp og líta í kringum okkur. Það er eitthvað spennandi að gerast, svo við kíkjum. Það er þetta brot í upplifunina sem er aðalatriðið, við þurfum á því að halda.“

Langar þig í fjársjóðsleit?

Það er auðvelt að taka undir þetta, enda geta listaverk í umhverfinu skapað spennu, hrifningu, vellíðan og alls konar eftirsóknarverð hughrif. Vegglistaverkin, sem eru misáberandi, bjóða líka upp á skemmtilegan möguleika á fjársjóðsleit, sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í. Nokkur fjöldi vegglistaverka í borginni hefur því verið tekinn saman á kort, sem nýta má sem nokkurs konar fjársjóðskort í leitinni að spennandi listaverkum. Vert er að taka fram að listinn er alls ekki tæmandi og aðeins hugsaður sem hlið inn í þennan skemmtilega heim sem veggjalistin býður upp á. Mögulega bætast fleiri verk við á listann síðar, ábendingar má senda á netfangið veggjalist@gmail.com. Loks er erfitt að spá fyrir um hve lengi hvert verk mun lifa, en það er hluti af upplifuninni; þetta síbreytilega landslag sem listin í umhverfinu býður okkur upp á. Hér má nálgast kortið, góða skemmtun!

Þessari frétt fylgja myndir af nokkrum vegglistaverkum í Reykjavík og næstu daga birtast fleiri myndir á samfélagsmiðlum borgarinnar.