Forhönnun Vatnsstígs var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í dag. Samþykkt var að fara í áframhaldandi undirbúning, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar götunnar. Um er að ræða göngugötusvæði samkvæmt deiliskipulagi frá árinu 2021 en það þýðir að yfirborð götunnar verður gert að einum fleti, sem bindur saman húsin við götuna á heildstæðan hátt.
Verkið er unnið í samstarfi við Veitur og uppbyggingaraðila á svæðinu en mikil uppbygging hefur átt sér stað við austari hlið götunnar og fer þeirri uppbygginu senn að ljúka. Þar er lítið torgsvæði innan lóðar sem opnast mót vestri og út í göturýmið en samráð hefur verið haft við uppbyggingaraðila varðandi hönnun þess þannig að úr verði samfella í ásýnd og yfirbragði. Aðgengi að bílastæðum í kjallara Vatnsstígs 4 og í port við Vatnsstíg 3 er tryggt.
Samráð og virkt samtal við hagsmunaaðila
Einnig verður lýsing uppfærð með ljósastaurum sem eru lægri en nú eru þarna í takt við önnur svæði í miðborginni. Einnig er gert ráð fyrir auknum gróðri við götuna og blágrænum ofanvatnslausnum. Þær eru leið til að veita ofanvatni í jarðveg á náttúrulegan hátt, eins og með með því að hafa ekki allt yfirborðið hellulagt heldur bæta við beðum sem vatni verður beint í.
Í undirbúningsferlinu og á framkvæmdatíma verður haft samráð og virkt samtal við viðeigandi hagsmunaaðila, svo sem íbúaráð, aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og atvinnulíf á svæðinu.