No translated content text
Varðandi starfsemi íbúðakjarna á vegum velferðarsviðs
Starfsfólk velferðarsviðs Reykjavíkurborgar harmar að atvik sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum hafi átt sér stað. Starfsfólk hefur ekki heimild til að tjá sig um málefni einstaklinga en allar frásagnir af þjónustu sem er ekki samkvæmt kröfum um þjónustu við fatlað fólk eru litnar alvarlegum augum. Við þeim er brugðist og er leitast við að leysa úr málum sem upp koma í góðu samstarfi við íbúa og aðstandendur þeirra. Sem betur fer eru alvarleg slys fátíð í búsetuþjónustunni en þegar þau gerast er gripið til viðeigandi aðgerða.
Velferðarsvið vill koma eftirfarandi atriðum á framfæri:
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar rekur sextíu íbúðakjarna og sambýli víðs vegar um Reykjavík. Að meðaltali búa sex einstaklingar í hverjum þeirra. Í íbúðakjörnum búa einstaklingar sem þurfa stuðning við sjálfstætt líf, til dæmis stuðning við athafnir daglegs lífs og stuðning við að skipuleggja sig í daglegu lífi.
Skýrar kröfur um starfsemi og eftirlit á íbúðakjörnum
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála gefur út gæðaviðmið í þjónustu við fatlað fólk sem fylgt er í starfi íbúðakjarna. Þá er um hvern íbúðakjarna gerð kröfulýsing, þar sem fram eru settar almennar kröfur sem gerðar eru til þjónustu og rekstrar í íbúðakjarna. Í henni er þjónusta við einstaklinga skilgreind og fjallað um einstaka þætti þjónustunnar og annað sem snertir einstaklinga með beinum hætti, svo sem þjónustuöryggi. Þjónustustig á íbúðakjörnum er skipt frá I–IV. Eftir því sem þjónustustigið er hærra er stuðningur meiri.
Virkt eftirlit með starfsemi íbúðakjarna
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sinnir eftirliti með velferðarþjónustu sveitarfélaga. Daglegt eftirlit með starfsemi íbúðakjarna er á hendi forstöðumanns íbúðakjarna, deildarstjóra og framkvæmdastjóra miðstöðva velferðarsviðs. Með skipulagsbreytingum sem fylgdu samþykkt velferðarstefnu Reykjavíkurborgar árið 2021 var tekin ákvörðun um að styrkja innra eftirlit í málaflokki fatlaðs fólks enn frekar. Gerð var ítarleg könnun meðal fatlaðs fólks í íbúðakjörnum og sambýlum þar sem spurt var um sjálfstætt líf og nýtingu tækninnar í daglegu lífi. Finna má hlekk á skýrsluna hér fyrir neðan.
Í ágúst síðastliðnum voru tveir starfsmenn ráðnir til starfa til að sinna innra eftirliti og meðal annars gera ítarlega úttekt á öllum íbúðakjörnum og sambýlum í málaflokki fatlaðs fólks, að kröfu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Búist er við að þeir skili niðurstöðum á fyrri hluta næsta árs.
Könnun meðal fatlaðs fólks í íbúðakjörnum
Aðkomu lögreglu alltaf óskað ef upp koma alvarleg atvik
Ef slys eða alvarleg atvik verða á íbúðakjörnum eða sambýlum er kallað á sjúkrabíl og kemur lögregla alla jafna einnig á svæðið án þess að kalla þurfi sérstaklega til hennar. Komi lögregla ekki á staðinn sjálf er aðkomu hennar óskað. Lögregluskýrslur eru mikilvægar til að varpa skýru ljósi á atvik, meðal annars svo hægt sé að bregðast við og gera úrbætur sé þess þörf.
Mönnun gengur almennt vel á íbúðakjörnum
Á íbúðakjörnunum starfar mikill fjöldi öflugs starfsfólks. Mönnun hefur gengið vel að undanförnu og vel hefur gengið að halda starfsfólki innan málaflokksins, með tilheyrandi uppbyggingu þekkingar. Í ágúst störfuðu 1.553 manns í búsetuþjónustu við fatlað fólk á velferðarsviði í 1.088 stöðugildum. Sem stendur er verið að auglýsa eftir starfsfólki á níu heimilum fatlaðs fólks.
Mikil áhersla lögð á fræðslu starfsfólks
Á velferðarsviði er lögð rík áhersla á að starfsfólk fái fræðslu til að sinna störfum sínum vel og af alúð. Þar má meðal annars nefna fræðslu um líkamsbeitingu í starfi, vellíðan og samskipti.
Sérhæfð fræðsla fyrir starfsfólk í íbúðakjörnum er meðal annars: Skyndihjálp, hugmyndafræði um sjálfstætt líf, ofbeldi og fatlað fólk, þjónandi leiðsögn, hvernig koma megi í veg fyrir átök og uppákomur, batastefna um málefni fólks með geðrænan vanda sem og fræðsla um tilfinningaminni. Íbúðakjarnar geta líka óskað eftir sérstakri fræðslu sem hentar þeirra starfsemi.
Allt nýtt starfsfólk velferðarsviðs fer í gegnum nýliðafræðslu sem inniheldur meðal annars fræðslu um réttindi og skyldur starfsfólks, vinnuvernd, öryggismenningu og fræðslu um borgina og skipulag hennar. Einnig stendur þeim til boða að sækja önnur sérhæfð námskeið eins og við á fyrir hvern og einn starfsstað, svo sem um skaðaminnkandi hugmyndafræði, fatlað fólk með vímuefnavanda, einhverfu, fjölbreyttar tjáskiptaleiðir og fleira.