Útivistarsvæðið á Landakotstúni bætt

Skipulagsmál

Á svæðinu verður settur upp gervigrasvöllur sem hægt verður að nota á margvíslegan hátt fyrir bæði boltaíþróttir og almennan leik. Tölvugerð mynd
Tölvugerð mynd af Landakotstúni, með sparkvelli og leiksvæði og kirkju.

Stærra svæði en áður innan Landakotstúns verður skilgreint sem leik-, íþrótta- og dvalarsvæði með það að markmiði að efla útivistarsvæði Landakotstúns. Nýja svæðið nýtist einnig skólabörnum og með breytingunum verður möguleiki á fjölbreyttari notkun túnsins fyrir íbúa í nágrenninu.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti tillögu að breytingu á deiliskipulagi á hluta Landakotsreits á fundi sínum í morgun.

Settur upp gervigrasvöllur

Á svæðinu verður settur upp gervigrasvöllur sem hægt verður að nota á margvíslegan hátt fyrir bæði boltaíþróttir og almennan leik. Vallarsvæðið má vera allt að 21x36 metrar að stærð, sem þýðir að völlurinn verður sambærilegur þeim völlum sem fólk þekkir annars staðar frá í borginni.

Leiksvæðið endurhannað

Samhliða þessum breytingum verður leik- og dvalarsvæðið endurhannað. Lögð verður áhersla á að skapa aðgengilegt svæði fyrir alla og aðlaðandi áningarstað.