Útivistarreglur barna og unglinga

Börn að leik með báta í litlu tjörninni fyrir framan Ráðhúsið

Í þessari viku munu foreldrar barna í grunnskóla fá sent bréf um útivistartíma barna og unglinga. Með bréfinu fylgir segull með yfirliti yfir útivistartímann. Segulinn má til dæmis hengja á ísskáp til að minna alla í fjölskyldunni á gildandi reglur um útivistartíma.

Markmiðið með útivistarreglunum er að stuðla að heilbrigðu umhverfi fyrir börn og unglinga. Frá 1. september til 1. maí mega 12 ára börn og yngri lengst vera úti til klukkan átta á kvöldin og börn á aldrinum 13 til16 ára mega vera lengst úti til klukkan tíu á kvöldin.

Reglurnar eru fyrst og fremst settar til verndar börnum og stuðla að því að þau séu ekki ein og eftirlitslaus úti eftir að rökkva tekur.

Um leið og minnt er á útvistartímann er einnig vakin athygli á mikilvægi svefns. Góður svefn stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan og því mikilvægt að hafa góða reglu á svefntíma alla daga vikunnar. Með því að virða útivistarreglurnar og gæta þess að fá nægan svefn erum við betur undir það búin að takast á við verkefni dagsins. Endilega kynnið ykkur frekara fræðsluefni á #sofumbetur á samfélagsmiðlum.

Allir foreldrar vilja börnunum sínum það besta. Útivistarreglurnar hjálpa foreldrum að setja börnum sínum mörk og styðja þannig við bakið á foreldrum í uppeldishlutverkinu.

Útivistarreglurnar gilda allan ársins hring og alla daga; virka daga, um helgar og hátíðisdaga.

Gangi ykkur vel!