Útivist í borgarumhverfi

Umhverfi Skipulagsmál

""

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir fundaröðinni Borgin - heimkynni okkar,  um þróun og mótun borgarinnar.  Fyrsti fundur vorannar er á Kjarvalsstöðum þriðjudaginn 17. janúar kl. 20 og fjallað verður  um útivist í borginni.

Útivistarsvæði borgarinnar njóta vinsælda meðal íbúa. Árleg könnun þar sem spurt er um heimsóknir á valin svæði sýnir að Laugardalurinn er mest sótta útivistarsvæðið. Elliðaárdalur og Öskjuhlíð koma fast á hæla Laugardalsins sem og Tjörnin, Nauthólsvík og Heiðmörk. Fólk nýtir sér einnig Klambratrún og Fossvogsdalinn til útiveru og tómstunda.

Reykjavík hefur þann kost að vera borg þar sem stutt er til sjávar, sveita og til fjalla. Skíðasvæði eru í nálægð við borgina og víða hafa borgarbúar búsetu við ströndina og stutt í fjörur. Það er verðugt verkefni að leita eftir sjónarmiðum íbúa um Reykjavík sem útivistarborg. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur, ásamt Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfis- og skipulagsráðs, þessi misserin fyrir fundarröð um umhverfis- og skipulagsmál. 

Hvað einkennir góð útivistarsvæði? Hvernig má bæta aðstöðu til útivistar enn frekar? Hvernig hefur útivist áhrif á skipulag? Reykjavík býr yfir margskonar útivistarsvæðum sem vefja sig inn í byggðina og umhverfis hana og setja mark sitt á yfirbragð borgarinnar. Vel útfærð græn svæði, garðar og göngustígar auka lífsgæði, hvetja til útivistar og stuðla að bættri lýðheilsu. Rannsóknir sýna að regluleg útivera hefur marktækt betri áhrif á heilsuna en líkamsrækt innandyra.

Fram koma á fundinum: Hjálmar Sveinsson, formannur umhverfis- og skipulagsráðs, Gunnþóra Ólafsdóttir mannvistarlandfræðingur, Áslaug Traustadóttir landslagsarkitekt og Jón Gauti Jónsson skólastjóri Fjallaskólans.

Fundirnir um Borgina, heimkynni okkar, hafa verið vel sóttir bæði af fag- og áhugafólki um skipulag og umhverfi borgarinnar. Á fundunum hafa verið lifandi umræður um brýn efni er varða Reykjavíkurborg.

Hægt er að leggja stund og margskonar útivist í Reykjavík, borginni við sundin.

Fyrri fundir

1. Hver á borgina? 10. október 2014
2. Er borgin heilsusamleg? 12. nóvember 2014.
3. Á að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu? 13. janúar 2015.
4. Hver eru áhrif borgarumhverfis á hamingju? 10. febrúar 2015.
5. Hvaða máli skiptir náttúran í borgarumhverfi? 10. mars 2015.
6. Er miðborgin fyrir ferðamenn, íbúa eða alla? 13. október 2015.
7. Vinsamleg borg fyrir börn og unglinga. 10. nóvember 2015.
8. Loftslagsmál - hvað getum við gert? 9. febrúar 2016.
9. Menningararfurinn í brennidepli. 15. mars 2016.
10. Fjölmenning í ljósi umhverfis og skipulags. 12. apríl 2016.
11. Fagurfræðin í borgarskipulaginu. 11.október 2016.
12. Ríkir hugarfar sköpunar í Reykjavík. 15. nóvember 2016.

Tengill 
Sjá upptökur af fyrri fundum

Viðburður á Facebook um fundinn

Auglýsing um fundinn