Úthlutun leikskólaplássa að hefjast

Leikskóli

Úthlutun plássa í leikskólum borgarinnar fyrir haustið 2024 hefst 2. apríl. Að stærstum hluta er verið að úthluta þeim plássum sem losna þegar heill árgangur barna hefur grunnskólagöngu. 

Mikilvægt að yfirfara umsóknir fyrir 2. apríl

Úthlutað er eftir kennitöluröð, þau elstu fyrst og svo koll af kolli. Unnið er með umsóknir barna sem fædd eru í febrúar 2023 og fyrr*. Einu undantekningar á kennitöluröð eru þau börn sem hafa fengið samþykktan forgang í leikskóla, til dæmis vegna fötlunar eða félagslegra aðstæðna. 

Frá 2. apríl, þegar innritun hefst verður unnið úr umsóknum sem hafa borist, til 10. maí. Á meðan verður ekki tekið á móti nýjum umsóknum og ekki hægt að breyta innsendum umsóknum fyrr en að tímabilinu loknu. Fyrstu boð um pláss verða send út fljótlega eftir að innritun hefst. Nokkrar vikur tekur að úthluta þeim plássum sem  að losna í haust. Mikilvægt er að foreldrar og þau sem fara með forsjá barna yfirfari sína umsókn fyrir 2. apríl. 

Framkvæmdir áætlaðar í nokkrum leikskólum

Vegna umfangsmikilla framkvæmda verða ekki tekin ný börn inn í Grandaborg og Hálsaskóg næsta haust. Að auki verða takmörkuð pláss í boði í leikskólunum Garðaborg út af sömu ástæðu. Framkvæmdum í þessum leikskólum á að ljúka árið 2025. Von er á 75 plássum í nýrri Ævintýraborg við Vörðuskóla síðar á þessu ári, pláss sem ekki verða með fyrr en það fer að skýrast hvernig gengur að manna.

Framkvæmdir eru einnig áætlaðar í leikskólunum Laugasól, Sunnufold, Klömbrum og Kvistaborg þar sem má gera ráð fyrir tímabundnum flutningum leikskólans að hluta eða öllu leyti á næsta skólaári. 

Fram að 2. apríl verður hægt nota Leikskólareikninn til að fá áætlaða spá um stöðu barns á biðlista. Hann verður aftur á móti lokaður á meðan unnið er úr stærstum hluta umsókna fyrir næsta haust, frá 2. apríl til 10. maí. 

Hægt að skoða stöðuna í Leikskólareikninum

Leikskólareikninn er einfaldur í notkun. Fæðingardagur barns er einfaldlega sleginn inn í leitarvél ásamt hverfi og er þá reiknuð út áætluð staða barnsins á biðlistum í leikskólum í viðkomandi hverfi. Niðurstaðan er byggð á fæðingardegi barns, umsóknum sem þegar hafa borist, fjölda barna sem hætta til að byrja í grunnskóla og fleiri breytum. Hægt er að skoða staðsetningar á korti og bera þannig saman til dæmis leikskóla nálægt heimili fólks eða vinnu. Leikskólareiknirinn er byggður á lifandi gögnum og eru tölurnar uppfærðar einu sinni dag. Niðurstöður úr reikninum eru ekki umsókn og geta ekki gefið loforð um pláss. Hann sýnir hvar í röðinni þitt barn myndir lenda í þeim leikskólum sem þið hafið hug á miðað við stöðuna þann dag sem svo getur breyst eftir því sem umsóknum fjölgar eða fækkar. 

Best væri að sem flestir sem ætla að nýta Leikskólareikninn við val á leikskóla geri það fyrr en seinna. Enn sem komið er nær leikskólareiknirinn aðeins yfir borgarrekna leikskóla. Vert er að taka fram að á tímabilinu sem unnið verður úr umsóknum verður leikskólareiknirinn ekki virkur.

Eftir að umsókn hefur verið skilað inn er hægt að fylgjast með hvar í röðinni á biðlista barn er í þeim skólum þar sem sótt var um pláss á Vala leikskóli. Þegar umsókn er fyllt út í fyrsta sinn þarf að skrá minnst tvo leikskóla og mest hægt að skrá fimm leikskóla. Mikilvægt er að foreldrar skoði vel umsókn sín barns til að tryggja að val sé rétt skráð.  

*Reglur um leikskólaþjónustu