Úrslit í hugmyndasamkeppni um skipulag háskólasvæðisins

Skipulagsmál

""

Úrslit í hugmyndasamkeppni um skipulag háskólasvæðisins voru kynnt í gær á Háskólatorgi. Sex tillögur bárust og voru tvær tillögur valdar og skipta þær með sér 2. og 3. verðlaunum. Alls bárust sex tillögur í samkeppnina en þátttaka var mun minni en vonir aðstandenda stóðu til. Tillögurnar sem hlutu verðlaunin þóttu hvorug gera áherslum dómnefndar fullnægjandi skil og því lenti hvorug þeirra í fyrsta sæti.

Aðdragandi að samkeppninni um skipulag svæðisins í kringum Háskóla Íslands er orðinn nokkuð langur.

Á 100 ára afmæli Háskóla Íslands árið 2011 lýstu stjórnendur skólans og Reykjavíkurborgar yfir vilja til að setja fram sameiginlega framtíðarsýn varðandi svæði Háskóla Íslands. Á síðastliðnu ári var síðan gefin út viljayfirlýsing þar sem rektor HÍ og borgarstjóri lýstu því yfir að staðið yrði að skipulagssamkeppni um svæðið. Samkeppnin fór formlega af stað 21. febrúar sl. og frestur til að skila inn tillögum rann út 12. maí.

Háskólasvæðið er áhugavert að mörgu leyti en þar eru heimkynni æðsta menntaseturs landsins og þar er að finna margar dýrmætar menningarstofnanir eins og Þjóðminjasafn Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum  og þar mun bygging Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur einnig rísa. Þá er Norræna húsið á svæðinu og sérstök útivistarsvæði, eins og friðlandið austan við Skeifuna. Svæðið er í mikilli nálægð við miðborgina sem gerir það einnig sérstaklega áhugavert. Deiliskipulagsáætlanir hafa verið unnar fyrir hluta svæðisins en þetta er í fyrsta sinn sem skipulag fyrir svæðið í heild er undirbúið og því þótti viðeigandi að efna til opinnar samkeppni.

Þátttakendur gátu skilað inn heildarhugmyndum sínum að framtíðarskipulagi svæðisins eða lagt hugmyndir inn í umræðuna um þetta mikilvæga verkefni.

Sex tillögur bárust, þar af voru fimm sem náðu til svæðisins alls en ein fjallaði um afmarkað þema. Þáttakan var mun minni en vonir aðstandenda stóðu til.

Dómnefnd valdi tvær tillögur en hvorug þeirra lenti í fyrsta sæti þar sem dómnefnd fannst að áherslum sínum væru ekki gerð fullnægjandi skil í tillögunum.  Deila þær með sér 2. og 3. verðlaunum.

VA arkitektar áttu aðra tillöguna en hina áttu ASK arkitektar.

Í báðum tillögunum sést að hægt er að koma umtalsverðu byggingarmagni fyrir á svæðinu. Háskóli Íslands hefur því möguleika á að vaxa á þessum stað en stofnanir og fyrirtæki á svæðinu gætu jafnframt notið sín. Tillögurnar eru ólíkar að yfirbragði og byggðamynstri sem sýnir að hægt er að leysa þetta flókna viðfangsefni á margvíslegan hátt. 

Niðurstöður dómnefndar um skipulagssamkeppni um svæði Háskóla Íslands.

Tillaga ASK arkitekta.

Tillaga VA arkitekta.