Uppbygging á útivistarsvæðum á Austurheiðum

Framkvæmdir Íþróttir og útivist

Kort af Austurheiðum

Framundan eru framkvæmdir sem gera Austurheiðar borgarinnar að betra útivistarsvæði. Meðal annars verða gönguleiðir merktar, stígar bættir og þeim fjölgað og gerð leik- og dvalarsvæði fyrir fólk og dýr. Framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjast nú í sumar og er áætlaður kostnaður 100 milljónir króna.

Útivistarsvæðið Austurheiðar er alls um 930 ha svæði sem nær yfir Austurheiðarnar að mestu, Hólmsheiði, Grafarheiði og Reynisvatnsheiði. Innan svæðisins er Rauðavatn, Reynisvatn og Langavatn að hluta. Verkefnið er í samræmi við samþykkt Aðalskipulag Reykjavíkurborgar og styður við stefnu Reykjavíkurborgar um að efla lýðheilsu og að gera aðgengilegt útivistarsvæði.

Í þessum áfanga verður unnið á tveimur svæðum:

Lyngdalur og Skál

Í svonefndum Lyngdal verður gerður leik- og áningastaður, bílastæði verður stækkað, gerðir verða nýir malarstígar og borið í eldri stíga.

Skál (Paradís/Paradísarskál) er mikið notuð af hundaeigendum og er lausaganga hunda heimiluð á þessu svæði. Fyrirhugað er að setja upp æfingasvæði fyrir hunda og áningarsvæði fyrir fólk og dýr.  Stígur að svæðinu verður breikkaður og aðrir stígar lagfærðir. Settir verða upp bekkir, sett verða upp auglýsingaskilti og gönguleiðir merktar.

Rauðavatn og merking gönguleiða

Gert verður leik- og dvalarsvæði í skógarstíl í nálægð við Rauðavatn með tilheyrandi bekkjum/borðum, leiktækjum og grillaðstöðu. Það verður gerður aðgengilegur stígur frá bílastæðinu og að nýja dvalarsvæðinu og út frá því eru fjölbreyttar stígatengingar. Svæðinu er ætlað að auðvelda aðgengi að Rauðavatni og upplifa fjölbreytt lífríki ekki síst fuglalífið við vatnið. Yfir vetrartímann nýtist þessi aðstaða líka vel fyrir skautafólk.

Gönguleiðir verða kortlagðar og merktar eftir litakerfi. Enn fremur verða sett verða upp upplýsingaskilti, vegstikur og vegvísar.

Markmið skipulagsins

Verkefnið er byggt á samþykktu rammaskipulagi fyrir Austurheiðar sem samþykkt var af skipulags- og samgönguráði 10. mars 2021. Þá eru Austurheiðar hluti af Græna treflinum sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörkum sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu.

Markmiðin með gerð rammaskipulags fyrir Austurheiðar eru margþætt og eiga að tryggja samræmingu landnotkunar innan svæðisins til að forðast hagsmunaárekstra milli núverandi og framtíðar landnotkunar á svæðinu. Helstu markmið eru:

  • Afmarka og skilgreina svæði eftir nýtingu þeirra.
  • Skapa fjölbreytt og aðgengilegt útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa og ólíka notendahópa eins og fyrir hestafólk, gönguskíði, fjallahjól, torfæruhjól, göngu, skokk, sveppamó, berjamó, ferðaþjónustu og fisflug.
  • Ákvarða og skilgreina legu helstu vegtenginga og göngu-, hjóla og reiðleiða um svæðið.
  • Styrkja tengingu byggðar við útivistarsvæði.
  • Styrkja samspil og tengingu Austurheiða við aðliggjandi útivistarsvæði.