Unglist 2024, listahátíð ungs fólks hófst 2. nóvember og stendur yfir í viku. Hátíðin hefur það að markmiði að hefja menningu ungs fólks á aldrinum 16-25 ára til vegs og virðingar.
Dansinn dunar, hljóðfæri eru þanin, söngurinn ómar, leikarar etja kappi í spuna, fyrirsætur spranga um tískupalla og óheft myndsköpun og skáldskapur eiga sinn fasta sess á hátíðinni. Unglist er hátíð þar sem fjölbreytileikinn þrífst og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Á unglist gefst færi á að koma menningu ungs fólks á framfæri og gefa þeim færi á að sýna listsköpun sína allt frá hugmynd til framkvæmdar.
Meðal þess sem í boði er Kór og klór, Jam session, Leiktu betur, Dansa, teygja og tvista, tískusýning og margt fleira.
Frítt er inn á alla viðburði Unglistar.
Unglistin hefur allt frá upphafi verið haldin af Hinu Húsinu, miðstöð ungs fólks, sem heyrir undir menningar- og íþróttasvið Reykjavíkurborgar.