Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Una Dóra Copley, dóttir Nínu Tryggvadóttur listakonu, undirrituðu síðdegis samning um stofnun Listasafns Nínu Tryggvadóttur í Höfða. Safn Nínu Tryggvadóttur verður fyrsta myndlistasafn Reykjavíkurborgar kennt við og tileinkað íslenskri listakonu.
Undanfarna mánuði hefur verið unnið að samningnum, skráningu safneignar, stofnskrá safnsins, erfðamálum og fleiru. Safnið verður í austurhluta Hafnarhússins í Reykjavík en í vesturhluta þess er nú Listasafn Reykjavíkur. Þar með verður allt Hafnarhúsið lagt undir listastarfsemi.
Í samningnum er kveðið á um að Una Dóra Copley einkadóttir Nínu gefi Reykvíkingum (vel á annað þúsund) listaverk eftir móður sína sem endurspegla allan feril listakonunnar. Meðal annars málverk, teikningar, glerverk og vatnslitamyndir. Auk þess gefur Una Dóra Reykvíkingum fasteignir á Manhattan og í Reykjavík eftir sinn dag sem og aðrar listaverkaeignir, bókasafn og fleiri muni.
Nína Tryggvadóttir (1913-1968) var fyrst og fremst þekkt sem listmálari en samdi einnig og myndskreytti bækur fyrir börn. Hún fæddist 16. mars, 1913 á Seyðisfirði og naut á sínum yngri árum tilsagnar Ásgríms Jónssonar í teikningum. Meðfram námi við Kvennaskólann í Reykjavík stundaði hún listnám í skóla Finns Jónssonar og Jóhanns Briem. Þaðan hélt hún utan til náms til að læra listmálun við Det Kongelige Akademi for de Skønne Kunster í Kaupmannahöfn og bjó síðar í París, London og lengst af í New York. Hún hélt þó ávallt nánum tengslum við Ísland og hélt fjölmargar einkasýningar hér heima sem og erlendis. Hún var virkur félagi í hreyfingu abstrakt-expressjónista í New York og má finna listaverk hennar í söfnum og í einkaeign víða um heim.
Hugarflug og samráð vegna útfærslu á Hafnarhúsi, húsi myndlistar
Borgarráð samþykkti í morgun að efnt verði til hugarflugs og samráðs vegna útfærslu á Hafnarhúsi, húsi myndlistar. Kallað verði eftir viðhorfum og hugmyndum til undirbúnings hönnunarsamkeppni þar sem útfærðar verði breytingar á Hafnarhúsi til að rúma Safn Nínu Tryggvadóttur, stækkun Listasafns Reykjavíkur og til að skapa rými fyrir aðra notkun hússins í þágu myndlistar og eftir atvikum annarrar listsköpunar. Kallað verði eftir aðkomu fjölbreyttra fulltrúa listafólks og borgarbúa á öllum aldri, Listasafns Reykjavíkur, bakhjarla Safns Nínu Tryggvadóttur, Erró-safnsins,Listaháskóla Íslands, tónlistarhússins Hörpu og annarra hagaðila.