Umsagnarfrestur lengdur fyrir húsnæðisátak

Verklýsing breytinga á Aðalskipulagi Reykjavíkur vegna húsnæðisátaks í Grafarvogi er nú í kynningu en hægt er að nálgast gögnin í gátt Skipulagsstofnunar. Búið er að lengja umsagnarfrestinn um hálfan mánuð. Nú er hægt að skila inn formlegum athugasemdum, ábendingum og umsögnum til 1. nóvember næstkomandi.

Borgarstjóri setti í byrjun árs 2024 af stað verkefnishóp um húsnæðismál. Meðal áherslna er að skoða möguleika á þróun á litlum og meðalstórum lóðum í úthverfum. Byrjað var á því að skoða Grafarvog en með þessum breytingum fá fleiri tækifæri til að búa í þessu gróna hverfi.

Markmiðið með húsnæðisátaki í grónum hverfum borgarinnar er að vinna hratt og vel við að deiliskipuleggja og úthluta byggingarhæfum íbúðalóðum til að mæta þörf á húsnæðismarkaði. Lögð er áhersla á að uppbyggingin taki mið af anda og aðstæðum á hverjum stað.