Byrjað er að dreifa nýjum tunnum fyrir sorphirðu í Laugardal. Tunnum er úthlutað samkvæmt gerð húsnæðis og fjölda íbúa. Dreifingin hefst á Dalbraut, Suðurlandsbraut og Rauðarárstíg norðan við Hlemm. Eftir það verður farið í Grunni og Læki, Teiga og Tún, Brúnir, Heima og Sundin og endað á Vegum og Vogum. Búist er við að dreifingin í hverfinu taki allt að tvær vikur.
Því næst verður farið í tunnuskipti í síðasta hverfinu, Háaleiti Bústöðum. Búist er við að tunnuskiptum í Reykjavík ljúki í byrjun september, um mánuði á undan áætlun.
Hvernig fer þetta fram?
Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er. Tunnum fjölgar þar sem ekki voru endurvinnsluílát fyrir. Að lágmarki er hægt að hafa tvær tvískiptar tunnur í sérbýli með þremur eða færri íbúum.
Öll heimili fá jafnframt körfu og bréfpoka undir matarleifar sem dreift er samhliða tunnuskiptunum.
Nokkrir vinnuflokkar koma að verkinu. Tveir flokkar dreifa samhliða nýjum tunnum, körfum og bréfpokum. Því næst eru gömlu tunnurnar teknar til baka og síðast kemur teymi sem merkir eldri tunnur með nýjum samræmdum flokkunarmerkingum. Miðað er við að útskiptunum ljúki innan eins dags fyrir hvert heimili.
Skylda að flokka í fjóra flokka við húsvegg
Skylt varð að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við húsvegg hjá heimilum með lögum um hringrásarhagkerfi, sem tóku gildi í janúar 2023. Þetta er viðamikið umhverfismál en með réttri flokkun er hægt að minnka sóun og endurnýta verðmæti í stað þess að þeim sé hent.
Flokkað verður í eftirfarandi fjóra flokka við heimili:
- Pappír og pappi
- Plastumbúðir
- Matarleifar
- Blandaður úrgangur
Ef það verða frávik í dreifingu, þannig að tunnur vantar, eða fjöldi á körfum er rangur miðað við íbúðir vinsamlegast sendið póst á upplysingar@reykjavik.is eða hafið samband í síma 411 1111.