Tökum þátt í Stóra-plokkdeginum um helgina

Umhverfi

Plokk

Reykjavíkurborg tekur þátt í Stóra-plokkdeginum um næstu helgi, eins og undanfarin ár. Hún hvetur borgarbúa til að taka höndum saman og tína rusl í nærumhverfi sínu. Tveir bílar verða á ferðinni til að safna pokum og gott er að nota ábendingarvefinn til að láta vita um staðsetningar.

Starfsfólk hverfastöðva borgarlandsins er þegar á vaktinni og tínir upp poka sem plokkarar láta vita af á plokk-síðum eða ábendingarvef. Á laugardag og sunnudag verða tveir bílar á ferðinni frá borginni til að grípa poka. Tilvalið er að láta vita um árangurinn á samfélagsmiðlum í hverfinu eða Plokk-síðum á facebook. 

Þau sem vantar poka til að tína í geta sótt þá á hverfastöðvar borgarinnar. Húsfélög eða hópar sem ætla að skipuleggja plokk-viðburð geta náð sér í poka á hverfabækistöðvar en þær eru opnar á föstudaginn til kl. 15:25. Gott er að vera með hanska og í áberandi vestum ef plokkað er meðfram vegum eða götum.

Hverfastöðin á Kjalarnesi tekur á móti pokum kl. 10-16 á sunndag. Hverfastöðvar í Jafnaseli og á Fiskislóð verða opnar kl. 10-16 á laugardag og kl. 10-18 á sunnudag.

Plokkum saman

Gott er fara með pokana á endurvinnslustöðvar Sorpu en hægt verður að fara með óflokkað í ólituðum pokum þangað um helgina. Rótarýhreyfingin á Íslandi hefur umsjón með deginum fyrir hönd Plokk á Íslandi. 

Tenglar