Tímabundin lokun í Laugardalslaug vegna viðhalds

Framkvæmdir Heilsa

Horft yfir 50 metra laug Laugardalslaugar úti, frá dýpri endanum. Blár himinn.

Kominn er tími á viðhald í Laugardalslaug og þarf því að loka lauginni tímabundið. Áætlaður framkvæmdatími er tvær vikur og verður sundlauginni, sem er sú stærsta í Reykjavík, lokað fyrir almenning frá þriðjudeginum 26. september. Sundæfingar og skólasund helst óbreytt þrátt fyrir lokunina.

Viðhald á lauginni hefur staðið til í nokkurn tíma. „Viðhaldslokun á útilaugarkeri Laugardalslaugar er löngu tímabær en langt er liðið frá síðustu viðhaldslokun,“ segir Árni Jónsson, forstöðumaður í Laugardalslaug. „Fara þarf í endurbætur á hluta af kýraugum í laugarkeri, koma fyrir þili á milli laugarkera, fara í endurbætur á yfirfallslögn, lagfæringar á flísalögn og ýmis önnur viðhaldsverkefni. Jafnframt verður unnið að ýmsum þrifum sem ekki er hægt að komast í þegar gestir eru í lauginni.“ 

Upplýsingar um framvindu á samfélagsmiðlum Laugardalslaugar 

Stefnt er að því að opna heita potta eins fljótt og aðstæður leyfa. Sundæfingar og skólasund helst óbreytt en meðan á viðhaldslokun stendur munu krakkar í skólasundi og iðkendur sem æfa sund nota gömlu afgreiðsluna, þar sem þeirri nýju verður lokað. Opið verður hjá nuddaranum sem starfar í Laugardalslaug. 

Samkvæmt verkáætlun tekur verkefnið tvær vikur, en óvissuþættir í verkinu geta haft áhrif á framkvæmdatíma og þann tíma sem laugin þarf að vera lokuð. Upplýsingar verða birtar reglulega á Facebooksíðu og Instagramsíðu Laugardalslaugar, um verkið og hvernig því miðar áfram. 

Aðrar sundlaugar standa gestum opnar 

Reykjavík rekur átta sundlaugar víðs vegar í borgarlandinu og í sundlaugarnar eru ávallt öll velkomin. Tilvalið er fyrir fastagesti Laugardalslaugar að nota tækifærið og prófa hinar laugarnar, þær hafa allar sinn sjarma og séreinkenni. Sjáumst í sundi! 

Nánar um helstu verkliði í Laugardalslaug:

  • Kýraugu - skipta út að minnsta kosti 15 kýraugum í laugarkeri
  • Þil á milli laugarkera - fjarlægja þil og setja upp nýtt þil undir brú. Með því að aðskilja laugarker með þili eru bundnar vonir við að auðveldara verði að hækka hitastig barnalaugar
  • Yfirfallsrenna í öllu laugarkeri - hreinsun á rennu með háþrýstiþvotti, viðgerð á rennunni og leki stoppaður á yfirfallslögn þar sem það á við
  • Lendingarlaug - málun og lagfæringar
  • Laugarker - lagfæringar á flísum
  • Sjópottur - áhersla á að fylla í flísalögn með fúgu og hreinsa pottinn vel
  • Aðrir pottar - hreinsun