Fimmtán bækur voru í dag tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar í ár en verðlaunin verða hefðinni samkvæmt veitt í Höfða á síðasta vetrardag, 20. apríl, fyrir frumsamda barna- og ungmennabók, myndlýsingar og þýðingu. Tilnefningarathöfnin fór fram á Torginu í Borgarbókasafninu í Grófinni. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, flutti ávarp og dómnefnd kynnti tilnefndar bækur og rökstuðning fyrir valinu.
Eftirtaldir rithöfundar, myndhöfundar og þýðendur eru tilnefndir til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2022 fyrir eftirtaldar bækur.
Barna- og ungmennabækur frumsamdar á íslensku:
- Þórunn Rakel Gylfadóttir: Akam, ég og Annika. Angústúra gefur út.
- Arndís Þórarinsdóttir: Bál tímans. Mál og menning gefur út.
- Hilmar Örn Óskarsson: Holupotvoríur alls staðar. Bókabeitan gefur út.
- Kristín Helga Gunnarsdóttir: Ótemjur. Bjartur gefur út.
- Margrét Tryggvadóttir: Sterk. Mál og menning gefur út.
Myndlýsingar í barna- og ungmennabókum:
- Rán Flygenring: Koma jól? Angústúra gefur út.
- Áslaug Jónsdóttir: Skrímslaleikur. Mál og menning gefur út.
- Hallveig Kristín Eiríksdóttir: Fuglabjargið. Bókabeitan gefur út.
- Linda Ólafsdóttir: Reykjavík barnanna. Iðunn gefur út.
- Elísabet Rún: Sólkerfið. JPV gefur út.
Þýddar barna- og ungmennabækur
- Guðni Kolbeinsson, Kynjadýr í Buckinghamhöll. Bókafélagið gefur út.
- Jón St. Kristánsson: Seiðmenn hins forna. Angústúra gefur út.
- Sólveig Sif Hreiðarsdóttir: Á hjara veraldar. Kver gefur út.
- Sverrir Norland: Eldhugar. AM forlag gefur út.
- Sverrir Norland: Kva es þak? AM forlag gefur út.
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur svo og að hvetja þá til bóklesturs.
Dómnefnd verðlaunanna í ár er skipuð Tinnu Ásgeirsdóttur formanni, Ásmundi Kristberg Örnólfssyni, Guðrúnu Láru Pétursdóttur, Karli Jóhanni Jónssyni og Valgerði Sigurðardóttur.
Hér fyrir neðan má lesa rökstuðning nefndarinnar:
Tilnefndar bækur í flokki myndlýsinga
Fuglabjargið eftir Birni Jón Sigurðsson og Hallveigu Kristínu Eiríksdóttur. Útgefandi: Bókabeitan.
Í Fuglabjarginu leiða höfundarnir lesandann í gegnum ár í fuglabjargi á leynieyju í norðurhafi. Við fáum innsýn í líf æðarfuglsins, ritunnar, súlunnar, skarfsins, langvíunnar og annarra litríkra sjófugla undir leiðsögn lítils hnoðra. Kvæði og texti Birnis Jóns einkennast af húmor og léttleika en líka angurværð og alvarleika, þegar efni er til, og myndir Hallveigar Kristínar undirstrika þann þátt sérstaklega. Myndirnar fanga vel andrúmsloftið á afskekktri og dularfullri eyju þar sem hvítur, sumarblár eða haustgrár himinninn er alltumlykjandi og leggur grunninn að hverri opnunni á fætur annarri. Lögð er áhersla á smáatriði í umhverfinu, dökkar klettaskorur í bjargi sem þakið er skófum og fugladriti, og ýmis sérkenni fuglanna eru skemmtilega útfærð, súlan fær skondna gula sundhettu og nærsýn hringvían gleraugu.
Koma jól? eftir Hallgrím Helgason og Rán Flygenring. Útgefandi: Angústúra.
Árið 1932 kom út bókin Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum með myndskreytingum eftir Tryggva Magnússon, sagnir af 13 bræðrum sem við þekkjum flest. Nú, tæpum 90 árum síðar, er loks komin bókin Koma jól?, um systur jólasveinanna, 13 Grýludætur, sem talast á við Jólin koma og svarar kalli nútímans um að rétta kynjahallan í jólasveinabransanum. Ljóð Hallgríms eru hvort í senn vel ort og skemmtileg og samspilið við myndir Ránar gerir bókina að frábæru verki. Rán sýnir hér á sér aðra hlið en í fyrri bókum sem hún hefur myndlýst. Þrátt fyrir samtal við eldra verkið reynir Rán ekki að líkja eftir klassískum myndum Tryggva. Myndir hennar eru dúkristur, prentaðar í tveimur litum sem gefa myndlýsingunum bæði nýstárlegt útlit en hafa um leið yfirbragð frá fyrri tíma sem styrkir heildarblæ bókarinnar.
Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur. Útgefandi: Iðunn.
Þetta er önnur bókin sem þær Margrét og Linda vinna saman með góðum árangri. Áður hefur komið út Íslandsbók barnanna sem vakti verðskuldaða athygli. Í þessari bók fara þær yfir sögu Reykjavíkur frá upphafi, hvernig borgin þróaðist frá landnámi til þeirrar borgar sem við þekkjum í dag. Þrátt fyrir að vera sagnfræði er bókin skrifuð á aðgengilegu máli fyrir börn út frá sjónarhóli sem gerir textann áhugaverðan, með örum kaflaskiptingum þar sem hver opna kemur inn á þau helstu málefni sem tengjast borgarþróun. Textinn fléttast vel inn í ákaflega vel unnar myndlýsingar Lindu á þann hátt að myndirnar eru ekki til að styrkja textann heldur eru algerlega hluti af honum. Myndlýsingar Lindu hafa yfir sér mjög klassískt yfirbragð, eru tímalausar og feta vel einstigið á milli raunsæis og stíliseringar og dempaðir litirnir gefa heildarverkinu fallegan tón.
Skrímslaleikur eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalla Güettler og Rakel Helmsdal. Útgefandi: Mál og menning.
Skrímslaleikur er tíunda sagan af litla og stóra skrímslinu. Litla skrímsli og stóra skrímsli eru eitthvað að bralla og koma loðna skrímslinu verulega á óvart með leikriti. En loðna skrímslið kann ekki við sig á áhorfendabekknum og skrímslin tvö þurfa að endurskoða hvernig þau nálgast loðinn vin sinn. Í bókinni er fjallað um hvernig sumir geta orðið utanveltu og einmana og þekkja jafnvel ekki skuggann af sjálfum sér. En skrímslin leysa úr vanda sínum af umhyggju, eins og þeim er tamt. Myndir Áslaugar leggja grunn að verkinu og í þeim birtist ólík skapgerð skrímslanna og tilfinningar þeirra skýrt. Ákafi og leikgleði litla og stóra skrímslisins eru smitandi en samt sem áður skína óöryggi og einsemd loðna skrímslisins í gegn á hverri mynd.
Sólkerfið eftir Sævar Helga Bragason. Elísabet Rún myndlýsti. Útgefandi: JPV.
Sævar Helgi er flestum að góðu kunnur fyrir framgang sinn í að vekja og efla vísindaáhuga ungu kynslóðarinnar, að efla vísindalæsi eins og það heitir. Bók hans um sólkerfið er bæði fræðandi og læsileg, Sævar á auðvelt með að ná til barna í framsetningu sinni og textinn er aðgengilegur jafnvel yngri börnum. Myndir Elísabetar Rúnar styðja vel við texta Sævars með myndum sem grípa strax athygli barna og auka áhuga þeirra á efninu. Myndirnar hafa yfir sér stíl myndasagna, með skörpum línum og dempuðum litum og eru áhugaverð viðbót við textann. Myndir af geimfara að reyna að snæða pítsu gegnum lokaðan hjálm, grillaðri plánetu og geimfara í útilegu á Merkúríusi bæta spaugilegri vídd við bókina og glæða efnið enn meira lífi.
Tilnefndar bækur í flokki þýddra bóka
Á hjara veraldar eftir Geraldine McCaughrean í þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur. Útgefandi: Kver.
Á hjara veraldar er söguleg skáldsaga byggð á raunverulegum atburðum og sögusviðið er afskekktur eyjaklasi norðvestur af Skotlandi á öndverðri 18. öld. Hópur drengja og manna er sendur til eggjatínslu og fuglaveiða á klettadranga úti á hafi og á að hafa þar sumardvöl. Lesendur fylgjast með harðri lífsbaráttunni í hrjóstrugri náttúrunni og þeim háskalegu aðstæðum sem ungir drengirnir búa við. Á hjara veraldar er vel skrifuð saga og mikið lagt í lýsingar á umhverfi og aðstæður drengjanna. Textinn er af þessum sökum töluverð áskorun fyrir þýðanda og leysir Sólveig Sif Hreiðarsdóttir verkefni sitt vel af hendi. Þýðing hennar er auðlesin og nútímaleg en inniheldur jafnframt fjöldann allan af sértækum orðum yfir fatnað, tól og aðbúnað sem hjálpa til við að staðsetja söguna í tíma.
Eldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu eftir Penelope Bagieu í þýðingu Sverris Norland. Útgefandi: AM forlag.
Eldhugar er hvort tveggja í senn unglingabók og bók fullorðinna. Á myndasöguformi eru sagðar þrjátíu sögur af konum sem settu, hver með sínum hætti, mark sitt á karllæga mannkynssöguna. Sem dæmi má nefna sögu hafgúu, geimfara, skapara múmínálfanna og stúlku í klerkaveldi Afganistan. Myndir, texti og þýðing Sverris skapa afar skemmtilegt heildarverk. Verk sem byggir á mannlegri reisn og hispurslausu sjónarhorni kvenna. Sverrir hefur við þýðinguna hitt á notalegan og lestarhvetjandi tón. Stíllinn er hnitmiðaður og málið kjarnyrt og þýðingin fellur í alla staði vel að myndasöguforminu. Lesandinn á auðvelt með að lifa sig inn í sögurnar í lipurri þýðingu Sverris og erfitt með að leggja bókina frá sér áður en allt er lesið.
Kva es þak? eftir Carson Ellis í þýðingu Sverris Norland. Útgefandi: AM forlag.
Það er ekki gott að fullyrða um hvað myndríka bókin Kva es þak? fjallar, annað en að eitthvað tekur að vaxa upp úr jörðinni og skordýrin í kring fylgjast með framvindunni. Er það Kimman plonk eða Glaðaspraða! Hver veit? Sverrir Norland íslenskaði Kva es þak? – ja, eða hvað? Bókin er reyndar ekki á mannamáli heldur er hún þýdd á skordýramál, en íslenskt skordýramál er það sannarlega. Sverrir hefur gætt þess vel að fylgja málkerfi íslenskunnar þannig að lesandinn á afar auðvelt með að geta sér til um hvað skordýrin segja, en tæpast eiga engir tveir lesendur eftir að ímynda sér það sama. Málið er hljómfagurt og leyndardómsfullt. Orðmyndirnar, málkerfið og lifandi samtöl skordýranna renna ljúflega til lesandans en um leið krefst sagan mikils af ímyndunaraflinu. Einstök bók á öðruvísi máli, bók sem stenst mál.
Kynjadýr í Buckinghamhöll eftir David Walliams í þýðingu Guðna Kolbeinssonar. Útgefandi: Bókafélagið.
Í fjarlægri framtíð er illa komið fyrir Lundúnum og sér í lagi stjórn ríkisins. Lasburða prins, Alfreð að nafni, þarf að finna ónotað hugrekki sitt og framtakssemi þegar ýmislegt kynlegt tekur að gerast á göngum Buckinghamhallar að næturþeli. Kóngur og drottning fá ekki rönd við reist og þá reynir á. Guðni Kolbeinsson hefur náð góðu sambandi við höfundarverk Walliams og er hér engin undantekning á því. Kjarnyrt íslenskan á sinn þátt í að gera bókina afar skemmtilega aflestrar og til viðbótar er hljóðheimi atburða hugvitsamlega snarað. Íslenskun hljóða sem til að mynda geislabyssur og októbóti gefa frá sér, er dæmi um snilldarverk skapandi íslenskumanns. Margt slíkt hefur Guðni nostrað við og setur það afar kátlegan blæ á söguna, en fyrst og síðast er Kynjadýr í Buckinghamhöll á afar vönduðu máli.
Seiðmenn hins forna: Að eilífu, aldrei eftir Cressida Cowell í þýðingur Jóns St. Kristjánssonar. Útgefandi: Angústúra.
Fjórða bókin um stríðsmennina ungu Ósk og Xar er fjörugur lokahnykkur á vinsælum fantasíubókum Cressida Cowell um Seiðmenn hins forna. Jón St. Kristjánsson hefur þýtt bókaflokkinn allan og áður verið tilnefndur til Barna- og ungmennaverðlauna Reykjavíkurborgar fyrir þýðingu sína á Seiðmönnunum. Cressida Cowell hefur í sögum sínum skapað einstakan heim þar sem finna má fjöldann allan af nýjum kynjaverum, göldrum og seiðmönnum og er frásögnin fjörleg og létt. Þýðing Jóns er í alla staði hugvitssöm og lifandi. Nýyrði og ný tegundaheiti líta dagsins ljós og eru svo haganlega samsett að lesandinn gleypir við þeim eins og gömlum. Málfarið allt er blæbrigðaríkt og sagan flæðir áfram á gagnsærri og hljómfagurri íslensku.
Tilnefndar bækur í flokki frumsaminna bóka
Akam ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur. Útgefandi: Angústúra.
Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur fjallar um hina 14 ára gömlu Hrafnhildi sem flyst ásamt fjölskyldu sinni til Þýskalands og þarf að læra að fóta sig á nýjum slóðum þar sem hún þekkir engan og talar ekki tungumálið. Þegar hún kynnist kúrdíska flóttadrengnum Akam er hún þó fljót að átta sig á hve góð staða hennar er miðað við aðra innflytjendur. Í bókinni er tekist á við flókin málefni á borð við kynþáttahatur og útlendingaandúð og bent á ábyrgð þeirra sem njóta forréttinda. Umfram allt er þetta þó þroskasaga Hrafnhildar sem þarf að endurmeta samband sitt við fjölskylduna, vinina og ekki síst sjálfa sig í þessu nýja umhverfi. Höfundur skilar tilfinningalífi aðalpersónunnar af einstöku innsæi og næmi í gegnum lipran texta. Akam, ég og Annika er grípandi bók sem hreyfir við lesandanum.
Bál tímans: Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndísi Þórarinsdóttur. Sigmundur B. Þorgeirsson myndlýsir. Útgefandi: Mál og menning.
Í bók Arndísar Þórarinsdóttur, Báli tímans, fylgja lesendur einum helsta dýrgrip íslenskrar menningarsögu, Möðruvallabók, eftir frá skrifpúlti munksins sem ritaði hana, milli stórbýla og biskupssetra, til Kaupmannahafnar og loks aftur til baka. Sjónarhorn Báls tímans er sérlega frumlegt en það er Möðruvallabók sjálf sem segir sögu sína. Úr verður lifandi og á köflum æsispennandi frásögn sem varpar ekki aðeins ljósi á gildi handritanna heldur fangar um leið sögu lands og þjóðar. Ljóst er að höfundur byggir ekki eingöngu á yfirgripsmikilli þekkingu á fortíðinni heldur beitir meðulum skáldskaparins af list þar sem heimildir skortir og dregur þannig sérstaklega fram þátt kvenna og barna. Kraftmiklar myndir Sigmundar B. Þorgeirssonar auka enn á gildi bókarinnar. Bál tímans er vel skrifuð og áhugaverð bók fyrir alla fjölskylduna.
Holupotvoríur alls staðar eftir Hilmar Örn Óskarsson. Blær Guðmundsdóttir myndlýsir. Útgefandi: Bókabeitan.
Í bókinni Holupotvoríur alls staðar er fjallað á skemmtilegan hátt um líf ungra drengja á Íslandi. Þeir eru í sumarfríi frá skólanum og stytta sér stundir með ýmsu móti en kynnast líka strák sem er nýfluttur til landsins og talar eingöngu pólsku. Bókin veitir innsýn í líf barna sem eru að kynnast börnum sem ekki hafa íslensku sem móðurmál og hvernig þau láta tungumálaörðugleikana ekki stöðva sig í því að mynda vináttu. Það sem gerir bókina einstaka er texti á pólsku sem lesandinn getur flett upp og séð hvað þýðir. Hilmar Örn Óskarsson nær að tengja saman íslensku og pólsku á skemmtilegan og fróðlegan hátt og Holupotvoríur alls staðar á eflaust eftir að efla áhuga bæði Íslenskra og pólskra barna á lestri.
Ótemjur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Útgefandi: Bjartur.
Ótemjur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur er spennandi saga þar sem fjallað er um aðkallandi samfélagsmál. Í forgrunni eru félagsleg réttindi barna og þörfin fyrir öryggi, ástúð og umhyggju. Eftir fráfall ömmu sinnar stendur hin þrettán ára Lukka uppi ein og þarf að heyja baráttu við kerfi sem er henni andsnúið og fullorðið fólk sem bregst henni. Þrátt fyrir alvarlegt umfjöllunarefni er frásögnin bæði hröð og leikandi og Kristín Helga tekst í bók sinni á við efnið af næmni og frásagnargleði. Brýn málefni eru sett í víðara samhengi, því réttindi barna snúa ekki síst að rétti þeirra til að tengjast ósnortinni náttúrunni og söguna má einum þræði lesa sem áminningu um að standa jafnframt vörð um hana.
Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur. Útgefandi: Mál og menning.
Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur fjallar unglingsstúlkuna Birtu sem er nýflutt til Reykjavíkur eftir að hafa mætt skilningsleysi vina og fjölskyldu þegar hún kom út sem trans. Hún býr í fábrotinni kjallaraíbúð ásamt ókunnugu erlendu verkafólki og þegar sambýliskonur hennar taka að hverfa ein af annarri ákveður hún að rannsaka málið. Þótt bókin fylgi formi glæpasögunnar, og sé þar af leiðandi bæði hröð og spennandi, ólgar umfjöllun um jaðarsetta hópa undir yfirborðinu. Sterk veitir lesandanum ekki aðeins innsýn í veruleika innflytjenda og fórnarlamba mansals heldur fjallar hún af einstakri hlýju og virðingu um stöðu transfólks. Titillinn vísar þannig í senn til þess hugrekkis sem Birta sýnir þegar hún reynir að uppræta glæpastarfsemi og þess styrks sem það krefst að hefja nýtt líf á eigin forsendum. Sterk er mikilvægt innlegg í knýjandi umræðu um réttindi og ranglæti.