No translated content text
Borgarstjórinn í Reykjavík óskar nú í ellefta sinn eftir ábendingum frá borgarbúum um Reykvíking sem verið hefur öðrum til fyrirmyndar. Ábendingarnar verða notaðar til að velja Reykvíking ársins.
Til greina koma aðeins einstaklingar, sem hafa verið til fyrirmyndar eða sýnt af sér háttsemi eða atferli sem kemur Reykjavík og íbúum borgarinnar til góða á einhvern hátt.
Slíkur borgari gæti t.d. verið einhver sem hefur haft jákvæð áhrif á borgarlífið, gert nærumhverfi sínu gott eða hefur gert mikið gagn í borginni á undanförnum árum með einhverjum hætti.
Sú hefð hefur myndast á undanförnum árum að Reykvíkingur ársins rennir fyrstur fyrir lax í Elliðaánum ásamt borgarstjóra í boði Stangaveiðifélags Reykjavíkur sem hefur árnar á leigu. Í fyrra var Þorvaldur Daníelsson betur þekktur sem Valdi í Hjólakrafti valinn Reykvíkingur ársins en þar áður var Helga Steffensson sem rekið hefur brúðuleikhús fyrir valinu, 85 ára gömul.
„Ég hvet alla þá sem vita af einstaklingum sem vert væri að tilnefna að senda inn tilnefningar um Reykvíking ársins 2021, “ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Ábendingar um einstaklinga eru vel þegnar og ber að senda þær inn ásamt rökstuðningi um það hvers vegna viðkomandi einstaklingur á heiðurinn skilinn á netfangið hugmynd@reykjavik.is eða bréflega til skrifstofu borgarstjóra merkt Reykvíkingur ársins. Frestur til að senda inn tilnefningar rennur út mánudaginn 14. júní.
Þriggja manna dómnefnd velur Reykvíking ársins úr innsendum tillögum.
Hér er hægt að sjá hverjir hafa hlotið nafnbótina Reykvíkingur ársins frá upphafi