No translated content text
Borgarráð samþykkti í dag sex meginmarkmið og tólf tillögur um betri rekstur og afkomu bílahúsa Bílastæðasjóðs sem byggir á tillögum starfshóps. Málið fer nú til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.
Meginmarkmiðin eru að bæta nýtingu bílastæðahúsa þar sem þau verða staðsett og rekin til framtíðar og stefna að sólarhringsopnun þeirra með snjalllausnum, hætta niðurgreiðslu bílastæða í bílastæðahúsum og bílastæðasjóður greiði raunverð af leigu lands undir bílastæði í borgarlandi í borgarsjóð, minnka þörf fyrir bílastæði í borgarlandi og skapa þannig tækifæri fyrir fjölbreyttari og líflegri notkun borgarlands, mæta bílastæðaþörf þar sem bílastæði eru annars af skornum skammti, stuðla að aukinni notkun vistvænna ferðamáta, til dæmis með miðlægum bílahúsum og í tengslum við svokallað „Park & Ride” fyrirkomulag og draga úr byggingakostnaði íbúðahúsnæðis og þar með útgjöldum heimila.
Reksturinn standi undir sér
Tillögurnar snúa að því að gjaldskrá bílahúsa verði endurskoðuð þannig að rekstur húsanna standi undir sér.
Samtímis er mikilvægt að endurskoða gjaldskrá bílastæða í borgarlandi (gjaldskyld svæði) til að gæta að því að bílahús séu frekar nýtt en stæði í borgarlandi. Þá verði skoðað nánar möguleikar á útvistun rekstrar bílahúsa að hluta eða í heild og mótun viðskiptamódels slíks útboðs.
Þetta þarf meðal annars að meta í ljósi frekari markaðssamtala en einnig innleiðingar á aðgangsstýringarkerfi húsanna og samnings um rekstur þess.
Sett verði af stað vinna við rýni og greiningu á stöðu bílastæða í miðborginni, þ.e. samhengi framboðs bílastæða í bílahúsum og annarra bílastæða með tilliti til markmiða Aðalskipulags Reykjavíkur, bíla- og hjólastæðastefnu, fjölda íbúða, starfa, og fleira.
Farið verður í frekari greiningar
Niðurstöður þessarar greiningar liggja nú til grundvallar frekari þróun hugmynda að sölu eða breyttri notkun húsa. Jafnframt verði skoðaðir möguleikar á því að heimila handhöfum íbúakorta að leggja í bílahúsum innan síns íbúakortasvæðis þegar laust er í húsi.
Þetta þarf að skoða með tilliti til nýtingar húsanna og staðsetninga. Ekki er víst að þetta eigi við um öll húsin. Samþykkt var að skoða fyrst útfærslu á þessu í Stjörnuporti og Kolaporti. Einnig er að finna tillögur í skýrslunni um atriði sem tengd eru hverju og einu húsi.
Starfshópur um betri rekstur og afkomu bílastæðahúsa var skipaður af borgarstjóra með erindisbréfi í mars 2023 og byggir samþykkt borgarráðs á þeirri vinnu.
Málið fer nú til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.