Tillögur að þéttingu við Bústaðaveg lagðar til hliðar

Hverfisskipulag Skipulagsmál

Teikning af mannlífi í Háaleiti og Bústaðahverfi.

Viðhorf til vinnutillagna hverfisskipulags Reykjavíkur fyrir Háaleiti-Bústaði voru kortlögð í Gallup könnun sem var kynnt í dag.  

Nokkur meirihluti er andvígur ýmsum vinnutillögum hverfisskipulags í Háaleiti-Bústöðum sem hafa verið í kynningu frá því í október. Áberandi andstaða kom fram við tillögur um uppbyggingu meðfram Bústaðavegi við Grímsbæ og við Miklubraut og Háaleitisbraut og verður þétting við Bústaðaveg lögð til hliðar. Góður stuðningur var hinsvegar við ýmsar aðrar tillögur hverfisskipulagsins, s.s. um grænar áherslur við hitaveitustokk, vistlok yfir Kringlumýrarbraut og heimildir til byggingu aukahæðar á fjölbýlishús.

Þetta kemur fram í netkönnun sem Gallup gerði, fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar, um nýtt hverfisskipulag í borgarhlutanum Háaleiti-Bústaðir. Könnunin var gerð 15. - 30. nóvember 2021, úrtak könnunarinnar var 884 manns úr póstnúmerum 103 og 108, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Alls bárust 480 svör og þátttökuhlutfallið því 54,3%.

Uppbygging meðfram Bústaðavegi og Miklubraut

Þegar spurt var um hugmyndir um uppbyggingu meðfram Bústaðavegi við Grímsbæ var rúmur helmingur svarenda andvígur hugmyndunum, eða 58%, en u.þ.b. þriðjungur hlynntur. Sama var uppi á teningnum þegar spurt var um tillögur að uppbyggingu meðfram Miklubraut og Háaleitisbraut en rétt um helmingur var andvígur hugmyndunum en 35% hlynnt. Meirihluti sagðist þó hlynntur uppbyggingu við Miklubraut og Háaleitisbraut ef Miklabraut væri sett í stokk undir Háaleitið.

Fjölbýlishús - nýbyggingar, aukahæðir og lyftuhús

Í könnuninni var spurt um viðhorf til hugmynda sem kynntar höfðu verið í vinnutillögum hverfisskipulagsins um að heimila nýbyggingar á stórum og lítið nýttum fjölbýlishúsalóðum á nokkrum stöðum í borgarhlutanum. Nánast jafnt hlutfall svarenda var hlynnt hugmyndunum og andvígt, þ.e. 38,5% hlynnt en 39% andvíg. Þá voru 45% hlynnt því að húsfélögum lyftulausra fjölbýlishúsa yrði heimilt að byggja aukahæð ofan á húsin og koma fyrir lyftu til að bæta aðgengi. 30% voru andvíg.

Grænar áherslur

Spurt var um viðhorf til grænna áherslna í vinnutillögunum, þ.e. um uppbyggingu grænna dvalarsvæða meðfram hitaveitustokknum og lagfæringu hans sem gönguleiðar. Í vinnutillögum hverfisskipulags er jafnframt lagt til að stokkurinn verði hverfisverndaður sem borgarminjar. Mikill stuðningur var við þessar tillögur, eða um 81% en einungis um 5% andvíg. Svipaða sögu er að segja um stuðning við tillögur um vistlok (gróðurbrú) yfir Kringlumýrarbraut við Veðurstofuhæð en 71% sagðist hlynnt hugmyndunum en 11% andvíg. Vistlok á þessum stað myndi búa til græna tengingu á milli hverfanna sitthvoru megin við Kringlumýrarbraut, bæta göngu- og hjólatengingar og draga úr ónæði frá þungri umferð.

Munur á viðhorfum eftir aldri

Í könnun Gallup kom fram marktækur munur á viðhorfum til vinnutillagna hverfisskipulagsins eftir aldri. Almennt nutu tillögurnar meiri stuðnings meðal fólks undir fertugu en þeirra sem eldri eru. Þessi munur var ekki síst áberandi á viðhorfum til uppbyggingar meðfram Bústaðavegi, Miklubraut og Háaleitisbraut.

Hugmyndir um þéttingu við Bústaðaveg lagðar til hliðar

Í bókun meirihlutans í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar eftir kynningu á könnuninni í dag er þeirri miklu og blómlegu umræðu sem hefur átt sér stað um vinnutillögur að hverfisskipulagi Háaleitis og Bústaða fagnað, jafnframt segir: „Ljóst er að tillögur að þéttingu byggðar meðfram Bústaðavegi við Grímsbæ hafa mætt andstöðu meðal margra íbúa í hverfinu. Mikilvægt er að hlusta á þessar raddir íbúa og réttast er að leggja þessar hugmyndir um þéttingu við Bústaðaveg til hliðar og leita annarra lausna sem byggja á breiðari sátt og draga úr umferðarhraða, bæta hljóðvist og tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á svæðinu eins og kallað hefur verið eftir.“

Næstu skref

Lagt er til að unnið verði úr athugasemdum og niðurstöðum Gallup könnunar og netsamráðs með áherslu á að skoða umdeild atriði. Sérstök áhersla verði á afmarkað þróunarsvæði á Bústaðavegi við Grímsbæ. Stefnt er að því að kynna nýjar tillögur sem fyrst.

Tengill: Gallup: Nýtt hverfaskipulag Háaleitis-Bústaða Nóvember 2021