Þróunarstyrkir til skóla- og frístundastarfs 2018-2019

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum í dag að veita 45 þróunarverkefnum í skóla- og frístundastarfi styrki fyrir andvirði 40 milljóna króna.

Áherslur þróunarstyrkja að þessu voru í samræmi við áhersluþætti sem fram komu í víðtæku samráði við mótun nýrrar menntastefnu borgarinnar:

  • Félagsfærni – sýna samfélagslega ábyrgð og virkni
  • Sjálfsefling – hafa sterka sjálfsmynd og trú á eigin getu
  • Læsi – skilja samfélag og umhverfi
  • Sköpun – beita skapandi hugsun
  • Heilbrigði – tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og líða vel

Hæstu þróunarstyrkirnir fyrir 2018-2019 renna til verkefna í þremur grunnskólum. Þannig fá tvö verkefni í Fellaskóla samtals 3.3 milljónir króna, annars vegar verkefni sem miðar að því að innleiða stafræna kennsluhætti með áherslu á forritun og hins vegar verkefni sem miðar að því að efla félags- og tilfinningafærni nemenda, en 80% þeirra eiga annað móðurmál en íslensku.  Í Hólabrekkuskóla fá einnig tvö verkefni þróunarstyrki, annars vegar Snillismiðjan og hins vegar verkefni sem miðar að valdeflingu nemenda undir fyrirsögninni Slammarar. Í Ingunnarskóla fær verkefni sem miðar að því að styrkja geðheilsu barna og unglinga styrk upp á 1.750.00 króna.  Alls fengu 22 verkefni í grunnskólunum þróunarstyrki.

Þrjú verkefni sem ná til tíu leikskóla fá þróunarstyrki. Sá hæsti upp á 6 milljónir króna rennur til verkefnis sem unnið verður í samstarfi átta leikskóla og Háskóla Íslands og miðar að því að efla fagmennsku deildarstjóra og annars starfsfólks leikskólanna til að ná fram markmiðum sem sett hafa verið fram í nýrri menntastefnu um læsi, sjálfseflingu, skapandi hugsun félagsfærni og heilbrigði barna.

20 verkefni í frístundastarfi og skólahljómsveitum fá styrki til margvíslegrar þróunarvinnu. Þannig fær Skólahljómsveit Austurbæjar á aðra milljón króna til verkefnisins Karnival sem miðar að því að kynna fyrir nemendum strauma og stefnur í brasilískri tónlist og frístundamiðstöðin Tjörnin færi styrki til 11 verkefna, m.a. til að efla félagsfærni, brjóta niður staðalmyndir kynja og efla foreldrasamskipti. 

Sjá yfirlit yfir alla þróunarstyrki skóla- og frístundaráðs 2018.