Þorgerður Ingólfsdóttir heiðursborgari Reykjavíkur | Reykjavíkurborg

Þorgerður Ingólfsdóttir heiðursborgari Reykjavíkur

miðvikudagur, 31. janúar 2018

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sæmdi Þorgerði Ingólfsdóttur, tónlistarkennara og kórstjóra, heiðursborgaranafnbót Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Höfða í dag.

  • Þorgerður Ingólfsdóttir, heiðursborgari Reykjavíkur, ásamt eiginmanni sínum Knut Arne Ödegard, Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra
    Þorgerður Ingólfsdóttir, heiðursborgari Reykjavíkur, ásamt eiginmanni sínum Knut Arne Ödegard og Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra

Borgarstjóri sagði í ræðu sinni að með nafnbótinni vilji Reykjavíkurborg þakka Þorgerði fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt starf í þágu borgarinnar og þjóðarinnar allrar á sviði tónlistar og kóramenningar.

Þorgerður á langan tónlistarferil að baki en hún hóf tónlistarnám sjö ára að aldri. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1963, tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og nam tónvísindi og kórstjórn á meistarastigi við University of Illinois í Bandaríkjunum. Hún hefur einnig stundað tónlistarnám í Austurríki, Bretlandi, Ísrael, Noregi og Sviss og nam auk þess guðfræði um hríð við Háskóla Íslands.

Þorgerður stofnaði Kór Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1967 og framhaldskór hans, Hamrahlíðarkórinn, árið 1982. Undir stjórn Þorgerðar hafa kórarnir notið gríðarlegra vinsælda, haldið fjölda tónleika hér heima og erlendis og hlotið margvísleg verðlaun, viðurkenningar og lofsamlega dóma. Ljóst er að kórarnir hafa haft víðtæk áhrif á íslenskt tónlistarlíf, í gegnum tónlistaruppeldi, innblástur og öguð vinnubrögð. Þúsundir ungmenna hafa hlotið tónlistaruppeldi í Hamrahlíðarkórunum og fjöldi landsþekktra tónlistarmanna og hljómsveita hafa haft þar viðkomu og má þar nefna Sigríði Thorlacius, Björk Guðmundsdóttur, Kristinn Sigmundsson, Egil Ólafsson og Valgeir Guðjónsson, og hljómsveitirnar Spilverk þjóðanna, Hjaltalín og Moses Hightower.

Þorgerður kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík í tæp þrjátíu ár og var fulltrúi tónlistarmanna í stjórn Bandalags íslenskra listamanna. Hún hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði tónlistar og meðal annars setið í dómnefndum í ýmsum alþjóðlegum tónlistarkeppnum.

Þorgerður hefur á ferli sínum hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, en meðal annars var hún gerð að borgarlistamanni Reykjavíkur árið 2012 og ári síðar var hún sæmd heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna. Þá var Þorgerður sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1985 fyrir tónlistarstörf.

Hingað til hafa sex Reykvíkingar verið gerðir heiðursborgarar Reykjavíkur en þeir eru; séra Bjarni Jónsson árið 1961, Kristján Sveinsson, augnlæknir, árið 1975, Frú Vigdís Finnbogadóttir árið 2010, Erró (Guðmundur Guðmundsson) árið 2012, Yoko Ono árið 2013 og Friðrik Ólafsson stórmeistari árið 2015.

Það er Reykjavíkurborg mikill heiður að sæma Þorgerði Ingólfsdóttur heiðursborgaranafnbót Reykjavíkur.