Þjónusta strætó og laun í vinnuskóla meðal tillagna Reykjavíkurráðs ungmenna
Skóli og frístund
Fundur Reykjavíkurráðs ungmenna með borgarstjórn Reykjavíkur fór fram í 23. sinn í dag. Fulltrúar Reykjavíkurráðsins báru upp sjö tillögur um málefni sem þau telja mikilvæg ungu fólki í Reykjavík.
Vilja nútíma samfélagsfræðslu
Að þessu sinni liggja sjö tillögur fyrir fundinum. Þær snúa að endurbótum á almenningssamgöngum, launahækkun fyrir störf ungmenna í Vinnuskólanum, mikilvægi þess að tryggja starfsemi Hinsegin félagsmiðstöðvar til framtíðar, aukna áherslu á að fræða börn og unglinga um það sem er að gerast í samfélaginu hverju sinni, að unglingum í félagsmiðstöðinni Öskju verði boðið upp á fleiri kvöldopnanir, að hætt verði við styttingu opnunartíma í starfi félagsmiðstöðva og að aukið samráð sé haft við ungmenni um málefni sem varðar þau. Meðfylgjandi er yfirlit yfir tillögurnar sem lagðar verða fyrir borgarstjórn á fundinum.
Ráðið hefur tekið þátt í mörgum spennandi verkefnum
Reykjavíkurborg var eitt fyrsta sveitarfélagið á landinu til að stofna ungmennaráð og nú er fundur Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar orðinn að árvissum viðburði. Tillögurnar sem lagðar hafa verið fram á fundum ungmenna og borgarstjórnar undanfarin ár hafa margar komist í framkvæmd og haft áhrif til góðs fyrir ungmenni í borginni. Þessi hefð hefur leitt af sér aukna áherslu á samstarf við ungmenni innan borgarkerfisins og á lýðræðislega starfshætti í starfi með börnum og ungmennum.
Fulltrúar í Reykjavíkurráði ungmenna hafa tekið þátt í fjölbreyttum og spennandi verkefnum síðast liðið ár en ráðið hittist á vikulegum fundum yfir vetrartímann.
Hafa fundað með Strætó bs.
Ráðið á fulltrúa í skóla- og frístundaráði og stjórn barnamenningarhátíðar og hefur fylgt tillögum frá borgarstjórnarfundum eftir inn í fagráð og nefndir. Haldinn er árlegur samráðsfundur með fulltrúum frá Strætó bs. til að ræða það sem betur má fara í strætósamgöngum í borginni og veitt endurgjöf á ýmis verkefni sem verið er að vinna að í borginni hverju sinni svo sem fyrirkomulag starfs Vinnuskólans og um fræðsluefni um hatursorðræðu og ólýðræðislega orðræðu. Fulltrúar úr ráðinu fóru síðasta haust til Noregs og kynntu sér hvernig unnið er að ungmennalýðræði þar og tóku þátt í ráðstefnu ásamt fjölmörgum norskum ungmennum. Þessa dagana er verið að undirbúa Norræna ráðstefnu þar sem ungmenni frá tíu borgum á Norðurlöndunum taka þátt. Ráðið skipuleggur einnig tvo starfsdaga á ári fyrir fulltrúa í öllum ungmennaráðum í Reykjavík.
Vettvangur fyrir yngri Reykvíkinga
Reykjavíkurráð ungmenna er samráðsvettvangur allra ungmennaráðanna sex sem starfa í hverfum Reykjavíkur en hvert ungmennaráð tilnefnir sína fulltrúa í Reykjavíkurráðið. Markmið með starfsemi Reykjavíkurráðs ungmenna og ungmennaráðanna í Reykjavík er meðal annars að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri og þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum.
Á myndinni eru, efri röð frá vinstri: Andrea, Jökull, Sóley, Eyrún. Neðri röð frá vinstri: Úlfhildur, Snæ, Karen