„Þetta gerir þig meðvitaðri um sjúkdóminn þinn“

Pálmi Karlsson er einn þeirra sautján einstaklinga sem taka þátt í prófunarverkefni sem snýst um fjarvöktun hjartabilunareinkenna.
Nærmynd af Pálma Karlssyni sem er einn þeirra sem tekur þátt í prófunarverkefni um fjarvöktun hjartabilunareinkenna.

Sautján einstaklingar sem fá þjónustu frá heimahjúkrun taka nú þátt í prófunarverkefni um fjarvöktun hjartabilunareinkenna hjá Skjáveri Reykjavíkurborgar. Verkefnið hófst í janúar og lofar góðu. Áætlað er að það standi yfir í að minnsta kosti 12 mánuði.

Einn af þeim sem taka þátt í prófunarverkefninu er Pálmi Karlsson, áttræður maður búsettur í Reykjavík sem hefur lengi glímt við hjartabilun. Afar mikilvægt er að fylgjast vel með einkennum hennar.  

Pálmi hefur gaman af áskorunum og ákvað því að slá til þegar honum bauðst að taka þátt í verkefninu. Hann fékk blóðþrýstingsmæli, súrefnismettunarmæli, vigt og spjaldtölvu heim og fylgist nú með sjúkdómnum sínum sem aldrei fyrr. „Þetta er ekkert mál, ég segi ykkur það satt,“ segir Pálmi, meðan hann mælir hjá sér blóðþrýstinginn og púlsinn af miklu öryggi. Þegar tölurnar birtast á skjánum segir hann: „Þetta eru svolítið háar tölur hjá mér núna.“ 

„Þetta er ekkert mál, ég segi ykkur það satt!“ 

Hann segist vera orðinn agaðri eftir að hann fór að mæla sig sjálfur. Það gerir hann nú daglega en fékk áður innlit frá hjúkrunarfræðingi einu sinni í viku. „Þetta hefur gert það að verkum að ég þekki sjúkdóminn minn betur og passa betur upp á hann en ég gerði áður,“ segir hann. 

Samskipti í gegnum spjallrás og myndsímtöl

Tvisvar í viku fyllir Pálmi út spurningalista á spjaldtölvunni um líðan sína og einkenni. Í spjaldtölvuna er jafnframt hægt að fylla inn aðrar upplýsingar, til dæmis um aðra sjúkdóma, lyf sem þarf að taka eða annað. Mælingarnar og upplýsingarnar sem Pálmi færir inn í spjaldtölvuna fara inn í kerfi sem hjúkrunarfræðingur í Skjáveri Reykjavíkurborgar fylgist með. Þar er vakt alla virka daga á milli 8 og 16. „Það er auðvelt fyrir notendur að vera í samskiptum við okkur í gegnum spjallrás í forritinu og í myndsímtölum,“ segir Laufey Dóra Áskelsdóttir, læknir og verkefnastjóri í Velferðartæknismiðjunni. 

Laufey Dóra Áskelsdóttir, læknir og verkefnastjóri í Velferðartæknismiðjunni, situr við tölvuna í Skjáveri Reykjavíkurborgar.
Laufey Dóra Áskelsdóttir, læknir og verkefnastjóri í Velferðartæknismiðjunni. 

Velferðartæknismiðja Reykjavíkurborgar starfar að innleiðingu velferðartækni og nýsköpun og þróun innan velferðar- og heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að auðvelda fólki að búa lengur á eigin heimili við betri lífsgæði, þrátt fyrir öldrun, fötlun eða veikindi.

Aukið öryggi og skilningur á sjúkdómnum

Aukið sjálfstraust notenda þjónustunnar og meðvitund um sjúkdóminn er í samræmi við væntingar til verkefnisins að sögn Laufeyjar Dóru. „Sumir eru svolítið smeykir við þetta í byrjun en það lagast fljótt þegar fólk sér hvað þetta er notendavænt og einfalt,“ segir hún. „Heilt yfir gengur þetta mjög vel, þótt ýmislegt hafi þurft að aðlaga, breyta og bæta, sem fylgir prófunarverkefnum. Þátttakendur hafa nefnt að þeim þyki fjarvöktunin auka öryggi þeirra og skilning á sjúkdómnum.“ 

„Sumir eru svolítið smeykir við þetta í byrjun en það lagast fljótt þegar fólk sér hvað þetta er notendavænt og einfalt.“

En hvað gerist þegar mælingar sýna einhvers konar frávik? „Við erum með skýrt verklag um hvernig er brugðist við því. Hjúkrunarfræðingur í Skjáveri byrjar á að senda viðkomandi skilaboð í gegnum kerfið og fá nánari lýsingar á líðan og einkennum. Við leysum það sem við getum með fjarvöktun og getum líka tekið skjásamtal óski viðkomandi eftir því. Ef hins vegar næst ekki í einstaklinginn með skilaboðum eða símtali er haft samband við heimahjúkrun sem fer þá í vitjun. Markmiðið er að grípa fljótt inn í ef skjólstæðingi virðist vera að versna og erum við þá í samstarfi við bæði göngudeild hjartabilunar á Landspítalanum og heimahjúkrun Reykjavíkurborgar varðandi meðferð og hvort viðkomandi þurfi vitjun heim.“

Fjarvöktun hafi gefið góða raun í Noregi

Prófunarverkefnið á sér fyrirmynd í öðrum löndum. Sams konar verkefni hefur til að mynda gefið góða raun í Noregi, þar sem innlögnum á sjúkrahús og komum á bráðamóttöku hefur fækkað með tilkomu fjarvöktunar.

Auður Sesselja Gylfadóttir, Laufey Dóra Áskelsdóttir, Auður Guðmundsdóttir og Kristín Sigurðarsóttir vinna að nýsköpun í velferðartækni.
Auður Sesselja Gylfadóttir, Laufey Dóra Áskelsdóttir, Auður Guðmundsdóttir og Kristín Sigurðarsóttir vinna að nýsköpun í velferðarþjónustu. 

„Við sjáum fyrir okkur að margir geti nýtt sér fjarvöktun þegar fram líða stundir. Ákveðið var að byrja á einstaklingum með hjartabilun en í raun getur fjarvöktunin hentað fyrir hvers kyns sjúkdóma og heilsubrest sem mikilvægt er að fylgjast með. Hægt er að sérsníða meðferðaráætlun hvers og eins að hans þörfum með mismunandi mælitækjum, spurningalistum, ráðleggingum og fræðsluefni.“

Gott að vita að verið sé að fylgjast með

„Það var auðvitað gott að fá innlit en ég veit að þau fylgjast með mér í Skjáverinu. Ég fæ reglulega skilaboð frá þeim og það veitir ákveðið öryggi. Þar fyrir utan finnst mér þetta bara dálítið spennandi og gaman. Það er gott að hafa eitthvert verkefni til að fara beint í þegar maður vaknar á morgnana. Mér fyndist orðið eitthvað vanta ef ég hefði ekki þetta verkefni,“ segir Pálmi að lokum. 

Mynd tekin aftan á Pálma þar sem hann mælir þrýstinginn og horfir á tölurnar sem birtast á blóðþrýstingsmælinum.
Pálmi les af blóðþrýstingsmælinum. 

Hægt er að senda póst á netfangið heima@reykjavik.is eða hringja í Þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411 11 11 til að fá frekari upplýsingar.