Fyrsta talning á negldum hólbörðum fór fram 17. október. Hlutfallið skiptist þannig að 7,2% ökutækja reyndist á negldum dekkjum og 92,8% var á öðrum dekkjum. Talið var í fyrra í sömu viku var þá hlutfall ökutækja á negldum dekkjum þá 15%. Nagladekk eru leyfileg frá 1. nóvember til 15. apríl. Nagladekk eru þó ekki talin nauðsynleg eða æskileg á götum Reykjavíkurborgar.
Úrval af vetrardekkjum án nagla hefur fengið háa einkunn í vetrardekkjakönnunum en helstu viðmið við val á dekkjum eru; aksturseiginleikar, hemlun, rásfesta, hröðun, veggnýr, aksturseiginleikar. Dekk sem standa til boða án nagla eru vetrardekk, harðkornadekk, harðskeljadekk, loftbóludekk og heilsársdekk.
Almennt ættu ökumenn ekki að treysta á gömul slitin dekk og sé mynsturdýpt vetrardekkja minni en 3,0 millimetrar má ekki nota þau samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja.
Naglar hjálpa ekki í snjó
Naglar í dekkjum hjálpa ekki til við akstur í snjó heldur aðeins við ákveðin skilyrði við ísingu á götum. Vetrarþjónusta gatna í Reykjavíkurborgar er viðamikil og í vetur verður aukið samstarf við Vegagerðina um forvirkar hálkuvarnir. Húsagötur verða settar í forgang og þær hreinsaðar að nóttu til ef þörf krefur. Einnig verður aukin upplýsingagjöf til íbúa um framvindu vetrarþjónustu.
Reykjavíkurborg mælir því með góðum ónegldum dekkjum undir borgarbílinn.
Helstu ókostir nagladekkja
- Loftmengun – veldur svifryki sem fer í lungun, bíll á nöglum mengar 40 sinnum meira en bíll án nagla.
- Slit á götum – mynda rásir í malbik, eykur viðhald og kostnað.
- Hávaði – truflar og þreytir fólk, dregur úr lífsgæðum.
- Eldsneyti – bifreiðar á nöglum eyða meira og valda meira sóti.
- Dauðsföll – auka líkur á ótímabærum dauðsföllum vegna mengunar.
Besta ráðið er að aka ævinlega varlega og eftir aðstæðum. Mikilvægt er að þrífa rúður, skafa, hafa réttan loftþrýsting í hjólbörðum, þrífa tjöru og önnur óhreinindi af dekkjum reglulega.