Teningasögur, réttarhöld og aukin tjáskipti meðal verðlaunaðra verkefna

Skóli og frístund

Hvatningarverðlaun grunnskóla 2024

Frábær verkefni sem bera vitni um gróskumikið grunnskólastarf fengu hvatningarverðlaun í gær. Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur efnir til hvatningarverðlauna fyrir leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarf á vegum borgarinnar ár hvert. Verðlaun fyrir starf í grunnskólum voru afhent í gær.

Markmið hvatningarverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer í skólum borgarinnar. Verðlaunin eiga að veita starfsfólki jákvæða hvatningu, ásamt því að viðhalda og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Verðlaunin eru viðurkenning fyrir vel unnin verk í þágu náms og kennslu og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra.

Fjölbreytt verkefni verðlaunuð

Tilnefningarnar sem bárust bera merki um þá miklu grósku sem er í skóla- og frístundastarfi í borginni. Þrenn verðlaun voru veitt einstaka skólum og ein viðurkenning, auk þess sem eitt samvinnuverkefni var verðlaunað. Borðspilið Teningasögur í Ártúnsskóla, Réttarhöld í Ingunnarskóla, Tobii fjör í Klettaskóla hlutu hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs. Þá hlaut Háteigsskóli viðurkenningu verkefnið Tenging er töff. Hvatningarverðlaun fyrir samvinnuverkefni fóru til Vesturbæjarskóla, Selásskóla og Ingunnarskóla fyrir Bátaleikana.

Tengingasögur til að efla félags- og samskiptafærni

Borðspilið Tengingasögur hentar öllum aldri og er spilað af litlum hópi nemenda hverju sinni og undir stjórn fullorðins sögustjóra. Sagan sem verður til í spilinu ræðst af ákvörðunum þátttakenda og getur tekið óvænta stefnu. Það hvetur nemendur til gagnrýninnar hugsunar og samvinnu, eykur félagsfærni og samskiptafærni. Þar sem nemendur þurfa að leysa ýmis mál sem upp koma í ævintýrinu eykur það málþroska, bætir orðaforða, talnaskilning og hugtakaskilning. Spilið er hægt tengja við faggreinar, námskrá grunnskóla og grunnþætti menntunar. Teningasögur eru ákaflega vinsælar meðal nemenda og hafa reynst góð leið til að kenna samvinnu, tillitssemi og virka hlustun, og til vinna gegn fordómum og tortryggni milli þátttakenda. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars spilið vera skemmtilega leið til að virkja fleiri til þátttöku með nýrri og skemmtilegri leið. Einn af kennurum skólans hannaði spilið og þróaði.

Hvatningarverðlaun grunnskóla 2024

Réttarhöld góð æfing í röksemdarfærslu

Réttarhöld í Ingunnarskóla er þróunarverkefni sem unnið er í íslensku og náttúrufræði og hefur verið tekið fyrir í 10. bekk frá árinu 2013. Verkefnið felur í sér nýjungar, tilraunir og nýbreytni í námsefni, kennsluaðferðum, námsmati og skipulagi náms og kennslu. Markmiðið er að nemendur læri annars vegar að finna efni og meta efnistök og heimildavinnu en fái einnig leiðbeiningar og æfingu í framsögn, samvinnu og rökræðum. Í upphafi fá nemendur fræðslu um réttarhöld, hlutverk lögfræðinga, til hvers er ætlast af vitnum og hvernig best er að undirbúa sig. Farið er yfir mikilvægi og réttmæti heimilda og þurfa nemendur að skila ítarlegri heimildaskrá og öllum gögnum sem vitnað er í. Nemendur vinna mikla heimildavinnu, afla gagna og lesa lagagreinar ásamt því að undirbúa sig fyrir spurningar frá andstæðingnum. Segja má að verkefnið sé vel undirbúinn málfundur en verkefnið er sett í leikrænan búning til þess að gefa ólíkum hlutverkum meira vægi. Í umsögn dómnefndar segir að verkefni hafi góða tengingu við raunveruleikann þar sem nemendur þurfa að setja fram röksemdafærslu á óhefðbundinn hvað skólastarf varðar. Réttarhöldin eru því góð æfing í því að setja sig í spor annarra.

Hvatningarverðlaun grunnskóla 2024

Aukin tjáskipti fyrir þau sem ekki geta notað talmál

Tobii fjör í Klettaskóla er byggt á innleiðingu á Tobii tjáskiptatækjum þar sem notast er við TD Snap tjáskiptaforritið. Tjáskiptatækin eru í eigu nemenda sem ekki tjá sig með orðum eða þurfa stuðning við talað mál. Lífsgæði nemenda hafa batnað til muna með tilkomu TD Snap og eiga þeir nemendur nú meiri möguleika á að tjá vilja sinn og eiga samtal um það sem á sér stað í lífi þeirra. Á miðstigi eru sameiginlegar kennslustundir þeirra nemenda sem nota tjáskiptatæki. Nemendur nota tjáskiptatækið til að svara spurningum og tjá sig um efni tímans. Þessir tímar fara fram þvert á bekki og árganga, iðulega um 7-10 nemendur. Efni tímanna er fjölbreytt, meðal annars um það sem efst er á baugi í samfélaginu hverju sinni, eins og eldgos og handbolti. En einnig er unnið með kjarnaorð og fjölbreytt efni sem tengist skólastarfinu. Það er stórkostlegt að sjá og kynnast nemendum sem eiga þessa leið til tjáskipta. Þau sýna, svo ekki sé um villst, getu sína, húmor og ákveðni og stolt eru þau þátttakendur í verkefnum sem annars gætu reynst þeim erfið. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að mikilvægt sé að framþróun sem þessi eigi sér stað í skóla eins og Klettaskóla þar sem farnar eru nýjar leiðir til að auka gæði skólastarfsins fyrir þann hóp barna sem á erfitt með máltjáningu.

Hvatningarverðlaun grunnskóla 2024

Efla tengslamyndun þeirra sem skortir tengsl

Til viðbótar hlaut Háteigsskóli viðurkenningu fyrir verkefnið Tenging er töff sem snýr að samskipta- og félagshæfni í nemendahópum. Tveir karlkennarar ræða við drengjahópa vikulega um ýmis málefni, s.s. skaðlegar karlmennskuhugmyndir, kynþáttafordóma, ofbeldi og vopnaburð. Ef vart verður við neikvæða menningu innan hópa er brugðist við með íhlutun. Verkefnið tekur jafnt til allra kynja og brugðist er við þar sem þörf er á. Einnig er boðið upp á tengslatíma fyrir nemendur sem sýna áhættuhegðun eða skólaforðun. Í þessum tímum hitta nemendur kennara sem þeir treysta, til að efla öryggi og tengsl í skólanum. Markmiðið er að mæta nemendum sem standa höllum fæti og jafna þannig aðstöðumun þegar kemur að félagslegum samskiptum, svo efla megi þá nemendur í að taka ábyrgar og upplýstar ákvarðanir, innan og utan skóla. Reynslan hefur sýnt að nemendur sem skera sig úr félagslega, eru oft nemendur sem skortir tengsl, hvort sem það er utan skóla eða innan. Með verkefninu er markvisst unnið að því að efla tengsl nemenda við skólaumhverfið, að þeir upplifi að þeir eigi griðarstað innan veggja skólans, en einnig að hægt sé að leiðsegja nemendum hvað varðar félagsleg samskipti, án þess að stimplun í félagahópi eigi sér stað.

Hvatningarverðlaun grunnskóla 2024

Kynnast notagildi raungreina á skemmtilegan hátt

Bátaleikar Selásskóla, Ingunnarskóla og Vesturbæjarskóla var það samstarfsverkefni sem hlaut viðurkenningu en það hefur verið unnið á vorin síðustu þrjú ár með nemendur í 6. bekk. Bátaleikarnir eru STEM áskorun ætluð til að örva rökhugsun barnanna með þrautalausnum og sköpun. Markmiðið er að búa til bát sem getur siglt 200 metra. Börnin fengu frjálsar hendur um það hvernig þau útfærðu lausnina en báturinn átti að vera búinn til úr endurnýtanlegum efnivið og ekki mátti nota rafmagn til að knýja bátinn áfram. Þau þurfa að beita sköpunargáfu, rökhugsun og hæfileika til samvinnu.Verkefnið vinnur með hæfniviðmið íslensku, stærðfræði, samfélagsfræði og náttúrufræði auk þess að þjálfa lykilhæfni. Í umsögn dómnefndar segir að Bátaleikarnir séu vel til þess fallnir að vekja athygli nemenda á notagildi raungreina, það sé áþreifanlegt og hafi skýra tengingu við raunveruleikann.

Hvatningarverðlaun grunnskóla 2024