Takk fyrir komuna á Fjölmenningarþing Reykjavíkurborgar

Frá setningu Fjölmenningarþings Reykjavíkurborgar
Fjölmenningarþing Reykjavíkurborgar 2024

Mikilvæg og þörf umræða um fjölmenningarmál fór fram á Fjölmenningarþingi Reykjavíkurborgar sem var haldið um liðna helgi í Hinu húsinu við Rafstöðvarveg.

Yfirskrift þingsins í ár var Að tilheyra – Belonging og helstu áherslurnar voru samskipti, viðhorf og lýðræði. Reykjavíkurborg er fjölmenningarborg og eru um fjórðungur íbúa hennar af erlendum uppruna. Hátt í 70 manns sóttu þingið og var boðið upp á 8 málstofur og kynningar þar sem málefni fjölmenningar voru skoðuð frá ýmsum hliðum. 

Málstofa um þýðingu bókmennta
Málsofa um þýðingar í bókmenntum. F.v. Luciano Dutra, þýðandi, Eliza Reid, forsetafrú, Hallgrímur Helgason, rithöfundur og Veronika Egyed, þýðandi.

 

Eliza Reid forsetafrú stýrði málstofu um bókmenntir og hversu mikilvægar þýðingar eru, því góð þýðing getur opnað aðra heima og miðlað menningu. Auk hennar tóku þátt þau Hallgrímur Helgason, rithöfundur, Veronika Egyed og Luciano Dutra þýðendur og ræddu þau meðal annars um hvort góð þýðing á bókmenntum geti falið í sér inngildingu.

Fjölmenningarþing Reykjavíkurborgar 2024
Ungmenni af erlendum uppruna ræða saman um lífið og tilveruna.

 

Í fyrsta sinn var boðið upp á mál­stofu sem var sér­stak­lega ætluð ungu fólki af er­lend­um upp­runa á aldr­in­um 13-18 ára. Þar gátu ungmennin rætt um upp­lif­un sína í sam­fé­lag­inu og reynslu sína af því hvernig er að vera ung­menni af er­lend­um upp­runa á Íslandi. 

Um 30 manns sóttu málstofu um samfélagstúlkun, fyrir fagfólk og aðila sem nota þjónustu túlka í starfi sínu. Samfélagtúlkur miðlar munnlegri merkingu á milli aðila sem tala ekki sama tungumál og tekur ekki afstöðu til viðfangsefnisins. Þátttakendum málstofunnar gafst tækifæri til að tjá sig um framtíð samfélagstúlkunar á Íslandi og unnu þau að lausnum til að endurskipuleggja nám í samfélagstúlkun við Háskóla Íslands. 

Fjölmenningarþing er mikilvægur vettvangur, sem skapar rými fyrir fólk til að hittast, fræðast, mynda tengsl og kynnast hvort öðru og ræða málefni sem snerta á fjölmenningu og inngildingu.  

Sjáumst að ári!