Takk fyrir komuna á Barnamenningarhátíð 2023

Barnamenning í borgarbókasafninu Spönginni.

Hátíðin fór fram um alla borg og gekk sérlega vel fyrir sig en ætlað er að vel yfir 15 þúsund manns hafi sótt 400 viðburði sem í boði voru á meðan á hátíðinni stóð.

Yfirskrift hátíðarinnar í ár var friður og unnu börn alls konar verkefni í tengslum við frið, bæði innri frið og heimsfrið.

Boðið var upp á stórar og smáar sýningar og viðburði fyrir börn og með börnum. Börn sýndu verk sín á virtum menningarstofnunum og tóku að miklu leyti yfir menningarlíf borgarinnar þá sex daga sem hátíðin stóð yfir.

Í ár var sérstök áhersla á viðburði í Grafarvogi þar sem Ævintýrahöllin var í aðalhlutverki á borgarbókasafninu í Spönginni. Fólk á öllum aldri fjölmennti og tók þátt í dagskrá með dansi, söng og gleði.

Fjöldi fólks hefur unnið sleitulaust við undirbúning og skipulagningu Barnamenningarhátíðar, starfsfólk Reykjavíkurborgar, leikskólar, grunnskólar, frístundamiðstöðvar, menningarstofnanir og einstaklingar. Hátíðin væri ekki jafn glæsileg og raun ber vitni ef þeirra nyti ekki við. Takk fyrir ykkar framlag.

Takk fyrir komuna, við sjáumst að ári!