No translated content text
Hljómskálagarðurinn er orðinn yfir hundrað ára en er samt stöðugt í þróun og hefur tekið skemmtilegum breytingum í smá skrefum frá því að Þorsteinn Magni Björnsson tók við honum fyrir sjö árum.
„Þemað í sumarblómunum í ár er líkt og í fyrra þessar tvær andstæður, appelsínugult og blátt annars vegar og gult og fjólublátt hins vegar. Þessir fjórir litir eru gegnumgangandi í sumarblómunum í beðum og kerjum. Sumum finnst þetta mjög djarft en mér finnst þetta svo fallegt,“ segir Þorsteinn Magni, garðyrkjufræðingur og umsjónarmaður Hljómskálagarðsins hjá Reykjavíkurborg, um þessa sterku suðrænu liti.
Litríkt laufskrúð
Sumarblómin eru langt í frá það eina sem setur svip sinn á gróðurinn í garðinum. Þorsteinn Magni hugsar mikið um blaðlitina á plöntunum. „Ég nota gulgrænt og fjólublátt mikið og er með sígrænar tegundir inni á milli,“ segir hann en svartyllir er dæmi um einstaklega fallega plöntu sem er víða í garðinum og er með fjólublátt laufskrúð.
Heilmiklar breytingar hafa orðið á garðinum frá Hljómskálanum og að styttunni af Jónasi Hallgrímssyni og einnig á beðunum sem liggja við austasta stíginn í garðinum. „Þetta er miðásinn í garðinum eins og hann var í upphafi,“ segir Þorsteinn Magni sem hefur viljað styrkja tilfinninguna fyrir þessum ási og sjónlínunni í gegnum garðinn. Beðin í kringum hann eru einstaklega falleg en á þessu svæði er líka skemmtileg upphituð vaðlaug, þar sem hægt er að setjast niður.
Logandi haustlitir
Hann velur líka plötur sem fá fallega haustliti og bendir til dæmis á eina plöntu með fremur rauðleit blöð „sem verða algjör flugeldasýning á haustin“. Hann segist síður pæla í blómstrun því hún geti klikkað og standi líka stundum stutt yfir svo það þurfi að hugsa um fleiri þætti. „Það er gaman að tegundum sem eru öðruvísi á litinn, ekki grænar.“
Í garðinum eru til dæmis margar tegundir af kvistum og síðan má sjá hvíta prestabrá „Crazy Daisy“ inni á milli hér og þar í garðinum. Þær eru í fullri blómgun núna. Eining má sjá rósir í bland, ýmiss konar eini og aðra sígræna runna, skrautlauka, brúskur, skrautgrös, riddaraspora, hátt í 20 tegundir af reynitrjám og margt fleira. Einnig vekur athygli að það hefur verið plantað bergfléttu í kringum lítinn skúr sem felur hann og lætur hann falla betur inn í umhverfið.
Fjölbreyttur skrúðgarður
Enn fremur er fjölæringum og sumarblómum plantað með runnum á skemmtilegan hátt. „Ég er að skapa skrúðgarð með fjölbreytnina að leiðarljósi,“ segir Þorsteinn Magni.
Í garðinum er líka að finna súlubeyki, sólhatt og sólblóm en þau síðastnefndu fóru frekar illa í kuldanum í sumar en þau voru mjög falleg í fyrra svo hann býst við að reyna aftur á næsta ári. Því næsta sumar verður áreiðanlega miklu hlýrra og sólríkara en í ár!
Jónas skreyttur sumarblómum
Styttan af Jónasi Hallgrímssyni er skemmtilega römmuð inn af litríkum sumarblómum. „Ég hef notað í sumarblómunum ansi mikið af tegundum sem eru gamaldags, eiginlega svona ömmublóm. Þetta eru gamlar tegundir sem hafa þrifist mjög vel í gegnum ræktunarsögu á Íslandi eins og morgunfrú og fjólur. Þær eru svo öruggar,“ segir hann.
Svo er ekki hægt að ræða við Þorstein Magna án þess að minnast á beðið við Hringbraut, sem blasir svo vel við ferðalöngum sem fara um þessa fjölförnu umferðargötu en þar fékk hann innblástur frá Van Gogh eins og hann útskýrði svo skemmtilega í viðtali í fyrra.
Í ár er þemað hið sama nema hann hefur skipt út plöntum, til að mynda valdi hann tvílita fjólu til að líta meira út eins og himininn.
Hrífst af mjúkum línum
Nýleg breyting á Hljómskálagarðinum er fyrir neðan innganginn við Bjarkargötu/Hringbraut. Þar er búið að gera aðgengi að garðinum opnara frá stígnum sjálfum til suðurs, sem býður meira upp á að nota þetta svæði til leiks og samveru.
Þorsteinn Magni er ekki hrifinn af kassalaga formum eða beinum línum. „Ég vil hafa mjúkar línur, ég á ekkert sérstaklega auðvelt með að gera beinar línur. Þetta er bara ég.“ Það má líka segja að ef formlegheitin eru of mikil verður umhverfið ekki eins bjóðandi. Hann bendir líka á að mjúkar línur bjóði upp á fleiri sjónarhorn.
Dýrmætur samverustaður
Það er dýrmætt að hafa þennan græna garð á þessum stað í Reykjavíkurborg. „Hann hefur stóru hlutverki að gegna, ekki bara fyrir viðburði heldur líka sem áningarstaður fyrir ferðamenn og heimamenn, og sem skrúðgarður,“ segir Þorsteinn Magni og telur líka upp hlauparana, hundaeigendurna og alla hina sem eiga leið í gegnum garðinn. „Þetta er samverustaður.“
Hljómskálagarðurinn er algjör perla í borgarlandinu sem er svo sannarlega hægt að hvetja fólk til að heimsækja og njóta samveru á þessum græna og fallega stað þar sem svo margt gleður augað.