Búist er við svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2019 vegna mengunar frá flugeldum. Styrkur svifryks var hár nær allan sólarhringinn 1. janúar 2018 en venjulega fellur styrkurinn hratt þegar líða tekur á nýársnótt.
Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að sýna aðgát og huga að börnum ásamt því að ganga rétt frá flugeldarusli. Hægt er að draga úr fjölda flugelda með því að kaupa rótarskot Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Rótarskotið er ágætur valkostur fyrir þá sem vilja styrkja starf björgunarsveitanna án þess að kaupa flugelda. Fyrir hvert rótarskot gróðursetur skógræktarfélagið trjáplöntu í nágrenni Þorlákshafnar næsta sumar sem stuðlar að betri loftgæðum og dregur úr gróðarhúsaáhrifum.
Hávaði vegna flugelda verður oft mikill, sérstaklega frá stórum skotkökum og því eru gæludýreigendur í borginni hvattir til að huga vel að dýrum sínum. Best er að halda köttum inni dagana í kringum áramót og hafa hunda ávallt í ól þegar þeim er hleypt út, þó það sé aðeins út í garð.
Veður
Samkvæmt veðurspá verður norðanátt, léttskýjað og kalt á miðnætti þegar nýtt ár gengur í garð. Veðurþættir eins og vindur og úrkoma hafa áhrif á mengun en litlar líkur eru á úrkomu fyrsta dag ársins. Töluverð óvissa er ennþá í veðurspám samkvæmt Veðurstofu Íslands.
Svifryk
Miðað við undanfarin ár gæti 1. janúar 2019 orðið fyrsti svifryksdagur ársins vegna mengunar frá skoteldum. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á loftgæði.is
Loftgæðamælistöðvar sem mæla svifryk í Reykjavík eru staðsettar við Grensásveg, í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, við Njörvasund og við Egilshöll.
Fólk með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma og börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki. Æskilegast er fyrir þennan hóp að vera innandyra þegar mest gengur á í kringum um miðnættið og loka gluggum. Ef svifryksmengun verður eins mikil og búist er við gæti heilbrigt fólk einnig fundið fyrir ertingu og óþægindum í öndunarfærum, jafnvel fram eftir nýársdegi.
Brennur
Söfnun í þær tíu áramótabrennur sem verða í Reykjavík gengur vel. Brennurnar verða flestar tendraðar kl. 20.30 með tveimur undantekningum Úlfarsfelli er tendrað kl. 15.00 um daginn og í Skerjafirði er eldur borinn að kestinum kl. 21.00 eftir blysför sem hefst kl. 20.30. Sjá nákvæma staðsetningu á brennum á korti.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur eftirlit með brennunum ásamt Lögreglunni og Slökkviliðinu á Höfðuborgarsvæðinu. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur jafnframt eftirlit með hreinsun á brennustað.
Meginatriði er að fara gætilega, passa börnin, nota hanska og hlífðargleraugu og njóta stundarinnar á öruggan hátt.