Um 35 námskeið voru haldin á sumarsmiðjum grunnskólakennara sem fram fóru í Háteigsskóla, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Myndlistaskóla Reykjavíkur, Gufunesbæ og Listasafni Reykjavíkur í vikunni.
Tekið var á móti 650 skráningum og mátti sjá áhugann skína af þeim kennurum sem tóku þátt til að efla sínar kennsluaðferðir. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur heldur sumarsmiðjurnar í lok hvers sumars til að gefa kennurum tækifæri til að kynnast nýjum hugmyndum í skólastarfi. Margir kennarar höfðu áhuga á að fræðast um spilamennsku í skólastarfi, um gervigreind og lesblindu ásamt því að læra framkvæmd G-PALS lestrarkennsluaðferðarinnar í kennslu.
Lífsleikni, núvitund og kynfræðsla
Áherslur Menntastefnu Reykjavíkurborgar "Látum draumana rætast" eru fléttaðar inn í sumarsmiðjurnar þar sem áhersla er á sjálfseflingu, félagsfærni, læsi, sköpun og heilbrigði. Námskeiðin og smiðjurnar voru fjölbreyttar og mátti finna smiðjur um kynfræðslu fyrir börn á öllum aldri, hugleiðslu, lífsleikni og markþjálfun. Þá voru sköpunarsmiðjur með áherslu á sýnilega endurgjöf í kennslustofunni og verkefnamiðað nám og lýðræði í skólastarfi.
Sköpun, tækni og spil í kennslu
Þá voru áhugaverð námskeið um þrívíddarhönnun- og prentun, um gervigreind og lesblindu og hvernig hægt er að koma til móts við nemendur með ADHD. Einnig var líflegt og skemmtilegt námskeið um Syngjandi skóla og fullt út úr dyrum á námskeiði um spjaldtölvur á yngsta stigi. Stærðfræðikennarar víkkuðu hugann á námskeiði um hugsandi kennslurými og mörg höfðu áhuga á hvernig hægt sé að nýta spil í kennslu. Þá voru námskeið sem snúa að fjölmenningu, eitt sem kallast Brú milli landa þar sem farið var yfir hvernig hægt er að eiga farsæl samskipi við foreldra með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og annað var um stöðumat nýrra nemenda á Íslandi.