Styttist í úthlutun leikskólaplássa

Skóli og frístund

Leiktæki á lóð leikskólans í Bríetartúni.

Nú styttist í að úthlutun plássa í leikskólum borgarinnar fyrir haustið 2023 hefjist. Fyrstu boðin um pláss verða send út 14. mars næstkomandi.

Börn sem verða orðin 18 mánaða 1. september 2023 fá fyrst boð um pláss, það eru börn sem eru fædd í febrúar 2022 eða fyrr. Farið er eftir kennitöluröð og boðið koll af kolli eftir aldri. Einu undantekningar á kennitöluröð eru þau börn sem hafa fengið samþykktan forgang í leikskóla, til dæmis vegna fötlunar eða alvarlegra félagslegra aðstæðna.  

Alla jafna tekur nokkrar vikur að úthluta þeim plássum sem vitað er að losna í haust. Umsóknir sem berast eftir 14. mars verður bætt á listann, í kennitöluröð, þann 17. apríl.  

Hægt er að fylgjast með hvar í röðinni á biðlista barn er í þeim skólum sem sótt var um í á Vala leikskóli. Þegar umsókn er fyllt út í fyrsta sinn þarf að skrá minnst tvo leikskóla og mest hægt að skrá fimm leikskóla. Mikilvægt er að foreldrar skoði vel umsókn sín barns til að tryggja að val sé rétt skráð.