Borgarráð hefur samþykkt reglur um styrki vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla við fjöleignarhús.
Reykjavíkurborg, OR og Veitur undirrituðu samning í apríl síðastliðnum um uppbyggingu innviða til hleðslu á rafbílum í Reykjavík. Eitt af verkefnum í samkomulaginu er stofnun sjóðs þar sem úthlutað yrði styrk til húsfélaga fjölbýlishúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum.
OR og Reykjavíkurborg munu leggja árlega 20 milljónir króna hvor í þrjú ár í sjóðinn til að úthluta styrkjum til að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Styrkurinn er eingöngu veittur til fjöleignarhúsa með 5 íbúðum eða fleiri samkvæmt skráningum fasteigna hjá Þjóðskrá Íslands.
Hámarks styrkupphæð til hvers húsfélags er 1,5 m.kr, ein og hálf milljón króna, þó aldrei meira en sem nemur 67% af heildarkostnaði verksins með virðisaukaskatti sem greiddur er í samræmi við framlagða reikninga. Í upphafi verður gert frávik frá þeirri reglu að úthluta í þeirri röð sem umsóknir berast, sbr. 7. mgr. 6. gr. Umsóknir sem berast fyrir 1. september 2019 verða skoðaðar og afgreiddar á sama tíma. Eftir þann tíma umsóknir afgreiddar í þeirri röð sem þær berast þar til sjóðurinn klárast.
Að þeim fresti loknum verður umsóknum forgangsraðað, í fyrsta lagi eftir fjölda hleðslustaða og í öðru lagi eftir kostnaði þar sem lægri kostnaði á hvern hleðslustað, er raðað framar hærri kostnaði.
Reykjavíkurborg leggur til stæðin og fé í styrktarsjóðinn, Veitur leggja til heimtaugar og OR fé í styrktarsjóðinn.