Stuðningur við börn og ungmenni einkennir styrki velferðarráðs í ár
Ár hvert veitir velferðarráð hagsmuna- og félagasamtökum styrki til verkefna á sviði velferðarmála. Alls fá átján félög styrk í ár og veitti forsvarsfólk þeirra þeim viðtöku við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í dag.
Velferðarráð leggur ríka áherslu á að styðja við starfsemi frjálsra félaga- og hagsmunasamtaka og eiga samstarf við þau. Ráðið setur sér ákveðnar áherslur vegna úthlutunar styrkja ár hvert. Mikilvægt er að verkefnin falli að stefnu og áherslum ráðsins. Í ár var sérstök áhersla lögð á verkefni tengd forvörnum eða stuðningi við jaðarsetta hópa, valdeflingu notenda og nýsköpun í velferðarþjónustu.
Stuðningur við börn, ungmenni og foreldra þeirra er einkennandi fyrir hæstu styrkina sem velferðarráð veitir í ár. Annars vegar eru veittir styrkir fyrir störf félags- og hagsmunasamtaka, með þjónustusamningi til eins eða þriggja ára. Þá eru veittir styrkir fyrir einstök verkefni.
Opinn leikskóli í fjölskylduvænu umhverfi
Memmm Play hlýtur hæsta styrkinn, eða 11.870.000 krónur á ári næstu þrjú árin. Styrkinn hlýtur félagið fyrir opinn leikskóla sem býður foreldrum / forsjáraðilum og ungum börnum þeirra fjölskylduvæna aðstöðu til að leika og hitta aðrar fjölskyldur, ásamt því að fá fræðslu, stækka tengslanet sitt og barna sinna. Í opna leikskólann mæta mæður og feður sem eru heima með börn sín í fæðingarorlofi og þau sem eru að bíða eftir leikskólaplássi. Þar er tækifæri fyrir foreldra til þess að eiga gæðastundir með börnum sínum en einnig tækifæri fyrir börnin að hitta jafnaldra sína og efla félagsþroska á mótandi aldri.
Foreldrahús hlýtur næsthæsta styrkinn, eða 10 milljónir króna á ári næstu þrjú árin. Styrkurinn er í fyrsta lagi fyrir dagmeðferðarúrræðið VERU sem er fyrir unglinga í vímuefnavanda og fjölskyldur þeirra. Í öðru lagi uppeldis- og sérfræðiráðgjöf fyrir foreldra / forsjáraðila sem eiga börn með greiningar, til dæmis adhd og einhverfu og annað tilfinningalegt, eins og kvíða og depurð. Í þriðja lagi er styrkurinn fyrir uppbyggingu námskeiða sem hafa það markmið að styðja og styrkja foreldra og forsjáraðila í foreldrahlutverkinu, sem eiga börn eða unglinga með hegðunar- og eða áhættuhegðun.
Verkefni sem ýta undir valdeflingu og samfélagsþátttöku
Hæsta styrkinn til eins árs hlaut Afstaða til ábyrgðar, eða 4 milljónir króna. Styrkurinn er fyrir félagslegri aðstoð við fyrrverandi fanga í Reykjavík, fjölskyldur þeirra og sér í lagi börn þeirra.
Félagið Tækifærið fékk hæsta styrkinn til einstakra verkefna eða 1,5 milljónir króna. Tækifærið er heildstæð og valdeflandi uppbygging og starfsfþjálfun fyrir ungt fólk af erlendum uppruna sem er utan vinnu og skóla.
„Nýsköpun í velferðarþjónustu verður oftar en ekki til þegar notendur og grasrótarsamtök mætast,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs. „Þess vegna erum við mjög ánægð að geta styrkt grasrótarstarf og hagsmunasamtök. Það er okkur afar mikilvægt að eiga bæði í samstarfi og samráði við þau.“
Átján félög í heild fengu styrk
Alls bárust 45 umsóknir, átján þeirra voru samþykktar og var styrkur veittur fyrir tæpar 53 milljónir króna. Styrkveitingarnar eru samþykktar í velferðarráði að fenginni tillögu styrkjanefndar. Í ár sátu í nefndinni Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, Sandra Hlíf Ocares, fulltrúi sjálfstæðisflokksins í velferðarráði og Dís Sigurgeirsdóttir, skrifstofustjóri á velferðarsviði.
Þjónustusamningar til þriggja ára:
Memm Play: 11.870.000 króna á ári.
Foreldrahús: 10.000.000 króna á ári.
Alanó klúbburinn, líknarfélag: 5.000.000 króna á ári.
Bergið Headspace: 4.000.000 króna á ári.
Félag heyrnarlausra: 4.000.000 króna á ári.
Blindrafélagið: 3.000.000 króna á ári.
MS félag Íslands: 3.000.000 króna á ári.
ADHD samtökin: 2.000.000 króna á ári.
Hugarafl: 2.000.000 króna á ári.
Þjónustusamningur til eins árs:
Afstaða til ábyrgðar: 4.000.000 króna.
Styrkir til einstakra verkefna:
Starfstækifærið – Tækifærið: 1.500.000 króna.
Hjálparstarf kirkjunnar – Taupokar með tilgang: 600.000 krónur.
Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu – Frú Ragnheiður: 500.000 krónur.
Reiðhjólabændur – Frelsishjól: 500.000 krónur.
Guðrún Barbara Tryggvadóttir – kórstjórn fyrir kór Korpúlfa: 300.000 krónur.
Samvera og súpa – félagasamtök: 300.000 krónur.
Vinaskákfélagið – skákiðkun: 200.000. krónur.
Sigurður Kristinn Sigurðsson – Söngfuglar: 180.000 krónur.