Skemmtileg stemning og fjör voru á afmælishátíð Brúarskóla á föstudaginn þegar 20 ára afmæli skólans var fagnað. Nemendur komu fram og sungu bæði ábreiður og frumsamin lög. Björk Jónsdóttir skólastjóri sem staðið hefur í stafni allan starfstímann segir ýmislegt hafa breyst frá opnun.
Brúarskóli er sérskóli fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum-, hegðunar eða félagslegum erfiðleikum og er hann starfræktur á fjórum stöðum borgarinnar. Felst börn eru í Vesturhlíð, svo í Brúarhúsum í Húsaskóla og svo við BUGL og á Stuðlum.
Mikilvægt að vinna traust barnanna
Í upphafi voru mörg þeirra sem komu í skólann í neyslu. Björk segir hins vegar að það hafi dottið nánast alveg niður í mörg ár, þó sé nýverið farið að bera aðeins á því aftur. Þá hafi mörg verið mikið eftir á í námi og með erfiða hegðun en nú segir hún einn stærsta vandann vera ofbeldishegðun. „Það er vaxandi hópur barna sem eru með áfallastreitu og áfallaröskun vegna þess sem þau hafa gengið í gengum í lífinu. Mörg koma úr erfiðum aðstæðum og bera þungan bakpoka,“ segir Björk.
Björk segir mikilvægt að hafa úrræði eins og Brúarskóla. Börnin séu í litlum hópum þar sem kennarar og starfsfólk getur sinnt þeim vel. „Það er mikið talað við þau til að reyna að fá fram af hverju staðan er eins og hún er en til að það takist þarf að vinna traust þeirra. Það þarf ekki endilega að vera umsjónarkennari heldur bara einhver í húsinu, að það sé alltaf einhver sem þau geta talað við ef eitthvað gengur á hjá þeim,“ segir Björk.
Í Brúarskóla vinnur hugsjónafólk og segir Björk tækifærin liggja í að virkja styrkleika barnanna og leyfa þeim að njóta sín. „Ef þau fá tækifæri til þess þá dregur úr þessari hegðun og þeim líður betur og þau geta slakað á. Maður þekkir þau svo vel og getur lesið í hegðun og líðan. Þegar þau koma sér maður ef þau séu svöng eða illa sofin. Stundum þurfa þau bara að fá að leggja sig.“
Mikið lagt upp úr að kenna félagslega færni
Í Brúarskóla er unnið að því að hjálpa og undirbúa börnin til að komast aftur í sína hverfisskóla sem gengur yfirleitt vel. „Það er mikilvægt að hafa úrræði sem þetta. Hér er ekkert stress. Það er alltaf starfsfólk með krökkunum og þau eru aldrei ein,“ segir Björk. Mikið er lagt upp úr að kenna þeim félagsleg samskipti, hver þau eru, þekkja eigin tilfinningar og hafa trú á sér.
Björk segir að henni finnist sem breytt samfélagsgerð hafi áhrif á börnin sem koma í Brúarskóla. Þannig telur hún að aukin skjánotkun barna ýti undir að þau séu aftengdari fjölskyldum sínum, taumhaldið minnki og þau fái gjarnan að stjórna. Þannig fái þau ákveðið vald sem þau svo ráði ekki við og hlutirnir fara úr böndunum.