Stefnt að opnun sundlauga í Reykjavík í fyrramálið

""

Bilun í Nesjavallavirkjun leiddi til lokunar sundlauga í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í dag. 

Samkvæmt upplýsingum frá Veitum er virkjunin komin aftur í fulla framleiðslu. Enn er verið að greina orsök bilunarinnar en vonast er til að skerðingum og tilmælum um að spara vatnið verði aflétt snemma í fyrramálið. 

Starfsfólk Reykjavíkurborgar er í startholunum með að hefja undirbúning fyrir opnun sundlauganna á miðnætti í samráði við Veitur, og er búist við að hægt verði að opna laugarnar á hefðbundnum tíma í fyrramálið.