Starfsmenn með úkraínskan bakgrunn hryggjarstykkið í nýrri miðstöð

Starfsmenn Skóla- og fjölskyldumiðstöðvar fyrir flóttafólk frá Úkraínu

Mikilvægi fjölbreytts starfsmannahóps með ólíkan bakgrunn sannast nú við opnun Skóla- og fjölskyldumiðstöðvar fyrir úkraínsk börn og fjölskyldur þeirra. Miðstöðin verður opnuð á morgun, fimmtudag, í frístundamiðstöðinni Tjörninni við KR völlinn. Sex úkraínskumælandi starfsmenn úr skólum borgarinnar halda utan um starfsemina þar sem þátttaka foreldra verður nauðsynlegur þáttur.

Skóla- og fjölskyldumiðstöð fyrir flóttafólk frá Úkraínu opnuð á morgun

Hentugt húsnæði var tryggt í byrjun vikunnar og mætti starfsfólkið næsta dag til að hefja undirbúning. Allt hefur þurft að gerast hratt og allir í hópnum sáttir og ánægðir með að taka þátt í verkefninu. Það gerir þeim kleift að einbeita sér að því að hjálpa fólki frá sínu gamla heimalandi en mörg höfðu reynt að svara símtölum og skilaboðum samhliða sinni vinnu. Ein úr hópnum lýsir því hvernig hún mætti til dæmis eftir vinnu alla daga til að sinna hjálparstarfi.

Fannst erfitt að taka þátt í gleðinni á kaffistofunni

„Ég var að frá átta á morgnana til níu eða tíu á kvöldin. Á vinnutíma var ég með heilan bekk af börnum sem ég gat varla stjórnað og fannst frábært að geta einbeitt mér að þessu,“ segir Oksana Shabatura. Hún er umsjónarkennari 2. bekkjar í Fellaskóla og hefur búið á Íslandi í 18 ár. Hún lýstir því hvað það hefur reynst erfitt að halda áfram með daglegt líf á sama tíma og stríðsástand er í heimalandinu vegna innrásar Rússa. „Mér leið ekki vel í vinnunni þessa daga. Ég kom á kaffistofuna, þar var fólk að hlæja, tala, undirbúa árshátíð og lifa eðlilegu lífi og ég var vön að vera alltaf með. Svo opna ég símann og sé hús í rúst og börn drepin. Hjarta mitt springur en ég heyri hlátur í kringum mig. Þannig að ég er rosalega ánægð að fara í þetta og vera með fólki sem skilur mig og er í sama gír og ég. Við skiptumst á upplýsingum og getum þannig hjálpað enn meira,“ segir Oksana.

Árni Valdason er sérkennari í Klettaskóla og hefur búið á Íslandi í átta ár. „Ég var líka upptekinn í vinnunni því allir voru að hringja. Ég skrifaði bréf til Helga [Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs] og hann svaraði og sagði að það væri hópur til að hjálpa flóttamönnum og nú er ég í honum,“ segir Árni sem fór skömmu eftir innrásina ásamt manni sínum til Póllands til að sækja foreldra hans sem þá voru að reyna að komast að pólsku landamærunum.

Vona að lista- og íþróttafólk leynist meðal foreldra

Bæði segja þau Oksana og Árni mikilvægt að úkraínsku foreldarnir taki þátt í starfsemi fjölskyldumiðstöðvarinnar og sjái um umönnun ungra barna. Þau vonast til að í hópnum leynist kannski myndlistar- og tónlistarfólk, og jafnvel íþróttakennarar. Enn er óvíst hversu mörg börn og foreldar munu sækja Skóla- og fjölskyldumiðstöðina og hvort opna þurfi á fleiri stöðum. Um 200 börn hafa komið til Reykjavíkur frá því innrásin hófst. Sumir hafa fengið þjónustu í Fíladelfíu sem þau hafa látið vel af og segir Oksana vel hugsanlegt að einhverjir vilji vera þar áfram. Fjarkennsla hefst líka í úkraínskum skólum klukkan sex á morgnana að íslenskum tíma og því ekki víst hversu margir munu sækja í miðstöðina að skóladegi loknum því þau þurfa að vakna mjög snemma. Þau segja því bæði að það þurfi að ráðast hversu margir munu sækja Skóla- og fjölskyldumiðstöðina. Ljóst sé að það þurfi að vera sveigjanleiki því óvissuþættirnir eru margir.

Í þessu verkefni sannast hversu mikilvægt það er fyrir vinnustaði að hafa starfsfólk með ólíkan bakgrunn í starfsliði sínu. Ásamt þeim Árna og Oksönu munu starfa Luba frá leikskólanum Miðborg (22 ár á Íslandi), Alina sem vinnur í leikskólanum Björtuhlíð (rúm 8 ár á Íslandi), Katarina sem vinnur á frístundaheimilinu Guluhlíð við Klettaskóla (5 ár á Íslandi) og Tetiana frá leikskólanum Hlíð.