Spurt og svarað um myrkurgæði og ljósmengun í Elliðaárdalnum

Umhverfi Skipulagsmál

""

Við gerð deiliskipulagstillögunnar á þróunarsvæðinu við Stekkjarbakka var Kristján Kristjánsson lýsingarhönnuður hjá LISKA ráðgjafi um ljósvist fyrir hönd EFLU. Hann var tæknilegur ráðgjafi ALDIN Biodome verkefnisins og svarar hér nokkrum spurningum um myrkurgæði og ljósmengun í Elliðaárdalnum.

Raflýsing varð ekki almenn í Reykjavík fyrr en með Elliðaárvirkjun 1921. Ljósmengun spillir myrkurgæðum og því er mikilvægt að stilla henni í hóf. Kostir myrkurgæða eru miklir fyrir valda hópa hérlendis t.d. stjörnufræðinga, áhugafólk um næturhimininn, nemendur, ferðamenn og íbúa í nágrenni við slík svæði. Myrkurgæði geta haft áhrif á heilsu manna og á dýr og gróður. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar um áhrif ljóss og ljóslotu á eldisfiska, heima og erlendis. Rannsóknir um áhrif ljóss á villta fiskistofna hafa þó ekki farið fram hérlendis, svo vitað sé. 

  • Myrkurgæði í Elliðaárdal eru skert vegna umferðargatna og lýsingar á stígum.
  • Ströng skilyrði voru sett varðand lýsingu á mannvirkjum á þróunarsvæðinu.
  • Birtustig er lækkað verulega á nóttinni um 80%.
  • Lýsing hefur ekki áhrif á lífríki í ánum.
  • Reglubundin vöktun á ljósmagni mun fara fram.

Kristján Kristjánsson lýsingarhönnuður svarar hér nokkrum spurningum um ljósmengun og myrkurgæði.

Hvernig eru aðstæður varðandi myrkurgæði í Elliðaárdalnum?

Aðstæður þarna í Elliðaárdalnum eru ekkert sérstakar hvað myrkurgæði varðar. Það sem hefur mest að segja um myrkurgæði er endurkast frá ljósabúnaði sem lýsir upp í himinhvolfið og veldur ljóshjúp á næturhimni. Þetta er yfirleitt óskipulagðri lýsingarhönnun að kenna. Umhverfi Elliðaárdals telst nú þegar mikið upplýst með umferðargötum, lýsingu frá blandaðri byggð í nágrenni og að auki lýsingu í dalnum meðfram göngu- og hjólastígum. Það er því svolítið seint að mínu mati að hafa áhyggjur af myrkurgæðum í Elliðaárdal. Þegar ég var beðinn um að veita ráðgjöf varðandi ljósmengun fyrir deiluskipulag á þróunarsvæðinu við Stekkjarbakka óskaði ég eftir að fá að mæla núverandi aðstæður. Til að mæla gæði myrkurs og hvort ljósmengun sé til staðar mælum við birtustig stjarna og því meiri birta sem mælist frá stjörnunum því betri eru myrkurgæðin. Aðstæður í Elliðaárdal reyndust út frá mældu ljósgildi stjarna vera 18,4 mpsas (magnitude per square arcsecond eða mag/arcsec²) en bestu skilyrði sem er hægt að mæla eru 22 mpsas (mælt ljósgildi stjarna, því hærri tala því meiri myrkurgæði). Slæm borgarlýsing telst vera er 18 mpsas en viðunandi úthverfahiminn er 19 mpsas. Til samanburðar má nefna að björtustu svæði í Hong Kong 13,2 mpsas.

Hvernig er hægt að draga úr áhrifum sem Aldin biodome eða önnur mannvirki gætu haft á myrkurgæði í Elliðaárdal?

Miðað við núverandi aðstæður í nágrenni Elliðaárdals og í dalnum sjálfum þá er erfitt að draga úr ljósmengun án þess að það sé gerð krafa um verndun myrkurgæða. Það sem við settum inn í deiluskipulagið var að farið yrði eftir leiðbeiningum samtaka um verndun á gæðum myrkurs (IDA) og alþjóðlegum leiðbeiningum lýsingarhönnunar um verndun á myrkurgæðum. Í þessum leiðbeiningum er svæðum skipt í flokka og þróunarreiturinn við Stekkjarbakka flokkast í E3 sem miðast við ljósmengun í úthverfum. En ákvörðun var tekin um að kröfur þyrftu að vera stífari og svæðið var sett upp í flokk E2 sem miðast við ljósmengun á dreifbýlissvæðum. Næsti flokkur þar fyrir ofan er flokkur E1 sem á við ljósmengun á svæðum eins og þjóðgörðum t.d. Þingvöllum. Þróunarreiturinn er eina svæðið í Reykjavík þar sem E2 flokkur er notaður.    

Það sem þetta þýðir fyrir ALDIN Biodome og önnur mannvirki á svæðinu, s.s. fyrirhugaður gróðurskáli Garðyrkjufélagsins, er að ljósabúnaður sem á að nota innan lóðarmarka á að beina ljósabúnaði niður svo að ljósmengun fari ekki yfir 2,5% upp í himinnhvolfið að hámarki. Þar eru líka teknar inn í kröfur um endurkast frá ljósi sem endurvarpast upp í næturhiminn til dæmis frá göngustígum eða bílastæðum. Einnig er gerð krafa um að ágengi frá lýsingu sé ekki hærra en 5 lux. Ágengi frá lýsingu verður þegar ljós er truflandi fyrir byggingar sem eru í nágrenni við lóðir á þróunarreit, t.d. ljós sem myndi skína innum glugga á byggingu utan lóðar á þróunarrétt. Einnig verður birtustigið lækkað niður um 80% á nóttinni. Þannig að þetta eru stífar kröfur varðandi verkefnið ALDIN Biodome og allt svæðið í heild sinni og kominn tími til að slíkar kröfur séu settar í Elliðarárdal. Í minnisblaði mínu stendur að svæðið flokkist sem E3 en í breyttu deiliskipulagi stendur núna að svæðið flokkist sem E2 eins og hefur komið fram. Mitt hlutverk er að vernda myrkurgæði í Elliðarárdal og það er svo lóðarhafa að fylgja því eftir og af þeim sökum er vöktunarákvæði sett inn líka.

Hver gætu áhrifin af lýsingunni orðið á fiskalífið í ánum og fuglalífið?

Nokkuð hefur verið rætt um hver áhrif lýsingar frá bygginu ALDIN Biodome geti orðið á dýraríkið. Það eru því miður engar rannsóknir til um áhrif manngerðs ljóss á vistkerfi á Íslandi en í skýrslu Umhverfis- og auðlindaráðuneytis um myrkurgæði á Íslandi er fjallað um áhrif ljóss á dýralíf og þar segir:  

„Á Íslandi er bjart þann tíma ársins sem lífverur eru hvað virkastar. Á veturna þegar dimmt er og búast mætti við að lýsing hefði mest áhrif eru margar lífverur óvirkar vegna kulda eða hafa yfirgefið landið (farfuglar). Vert er þó að hafa í huga að á norðlægum slóðum er algengt að birtusveiflurnar nýtist lífverum til að stjórna ákveðnum ferlum, svo sem þroska, fari, æxlun og dvala. Eru þær því viðkvæmar fyrir öllum ónáttúrulegum birtubreytingum. Breytingar á birtu geta einnig raskað jafnvægi milli bráðar og afræningja. Rannsóknir liggja engar fyrir um áhrif manngerðs ljóss á vistkerfi á Íslandi.”

Fjölmargar rannsóknir eru til um áhrif ljóss og ljóslotu á eldisfiska, heima og erlendis. Í fæstum tilvikum sem hér hafa komið upp er styrkur manngerðs ljóss svo mikill að ljósið hafi ótvíræð neikvæð áhrif á fiskaríkið. Hinsvegar segir að það sé erfitt að benda á tiltekin viðmiðunarmörk fyrir ljósstyrk, og hljóti þau að ráðast af aðstæðum. Nefna má að árið 2008 gerði Veiðimálastofnun þó athugasemdir við deiliskipulag Úlfarsárdals, og var einkum varað við flóðlýsingu á íþróttavöllum sem gert var ráð fyrir við árbakkana. Í umsögn stofnunarinnar um þverun Elliðaárósa með göngu- og hjólastíg segir einnig að þar þurfi að „takmarka og stýra lýsingu sem ætluð er vegfarendum þannig að hún beinist ekki að eða ofan í ósinn. Annars gæti lýsingin haft áhrif á gönguhegðun laxins, sérstaklega þegar komið er fram á haust." (heimild).

Hvernig er gott að tryggja að lýsingin verði lágstemmd?

Almennt skal á svæðinu miða við að hafa lágstemmda lýsingu með daufu uppljósi til þess að rýra sem minnst útivistargildi aðliggjandi útivistarsvæðis í Elliðaárdal. Lýsing utanhúss skal vera óbein, látlaus og glýjulaus, með afskermuðum lömpum, ljósabúnaður skal ávalt stilltur í núll gráðu halla til að takmarka að ljósið lýsi upp í himinn. Lóðarhafa ber að huga að lýsingu frá gróðurhúsi/hvelfingu með því að takmarka það ljósmagn sem berst frá húsinu. Slíku má ná fram með vali á búnaði sem er vel skermaður, og veldur sem minnstri ljósmengun, og notkun á ljósastýringu svo dæmi séu nefnd. Gera skal ráð fyrir reglubundinni vöktun á ljósmagni eins og nánar verður kveðið á um í vöktunaráætlun sem unnin verður í samráði milli rekstraraðila á svæðinu og Reykjavíkurborgar.

...

Ljósvist er almennt samansafn ýmissa þátta sem snúa að lýsingu svo sem dagsbirta, litarhitastig, litarendurgjöf, flökt, rafmagnsbirta, geislun, ljómi, glýja, ljósmengun, orka, o.s.frv. Helstu leiðir til að vernda myrkurgæði og sporna við ljósmengun eru að notast við hreyfiskynjara og aðrar stýringar á viðeigandi svæðum, að skilgreina myrkursvæði og þá stíga sem skal lýsa upp, gera kröfur eru gerðar um afskermingu lampa og setja kröfur eru settar fram um hámarksbirtu

Tenglar:

Hverfisskipulag – skipulag ljósvistar.

Myrkurgæði á Íslandi 

Minnisblað um lýsingu. Ath að þróunarreiturinn var færður í E2 flokk sem er strangari en E3

Spurt og svarað um deiliskipulagið