4. bekkingjar í Háteigsskóla spiluðu við sendiherra Breta og borgarstjóra þegar nýtt spil var kynnt til leiks en það var búið til í tengslum við bókina Tæknitröll og íseldfjöll sem einmitt Bryony Mathew sendiherra skrifaði.
Krakkarnir höfðu betur
Sendiherran og 4. bekkingjar skoruðu á Einar Þorsteinsson borgarstjóra á hólm í morgun og mátti hann hafa sig allan við í spilinu. Það dugði hins vegar ekki til og var það Benedikt sem vann á borðinu. Spilað var á fleiri borðum og var mikil gleði á meðan á heimsókninni stóð. Einari Þorsteinssyni borgarstjóra var úthlutað kallinum Einari grunnskólakennara sem einmitt er að finna í bókinni.
Vill opna augu barnanna fyrir störfum framtíðarinnar
Auk þess að vera sendiherra er Bryony Mathew doktor í taugavísindum og rithöfundur og er það von hennar að með bókinni nái hún að vekja áhuga barna til að sjá þau stóru tækifæri sem bíða þeirra og fylli þau hugmyndum og orku.
Markmið bókarinnar er að opna augu barna fyrir starfsmöguleikum framtíðarinnar og sýna þeim hvaða störf verða meðal þeirra áhugaverðustu og mikilvægustu hér á landi á næstu 10 til 20 árum. En eins og Mathew tekur fram í bókinni munu mörg grunnskólabörn dagsins í dag vinna við störf sem ekki eru enn til í heimi sem tekur svo örum breytingum.