Samþykkt var í skipulags- og samgönguráði 26. janúar að auglýsa tillögu fyrir endurskoðað deiliskipulag KR svæðisins. Tillagan fer fyrir borgarráð í næstu viku.
Auk þess eru áform um að auka fjölbreytni svæðisins með byggingu íbúða á jöðrum lóðarinnar í samræmi við markmið aðalskipulags. „Þessi tillaga hefur verið í vinnslu í talsverðan tíma og það er gaman að sjá hana loksins á leið í auglýsingu. Hún fellur vel að áherslum aðalskipulags, skapar möguleika á þéttingu byggðar og þar með sterkari grundvöll fyrir enn meiri þjónustu í hverfinu,“ segir Pawel Bartoszek formaður skipulags- og samgönguráðs. „Fjölnotahúsið sem liggur fyrir miðju svæðinu skoraði hátt í forgangsröðunarvinnu ÍBR og Reykjavíkurborgar og mun bæta mjög æfingaaðstöðu fyrir iðkendur á öllum aldri.“
Í breyttu aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er hluti KR svæðisins skilgreint fyrir íbúðarbyggð, verslun og þjónustu.
Meginmarkmiðið er að:
- Efla Vesturbæinn sem sjálfbært hverfi.
- Tryggja aukið framboð íbúðarhúsnæðis sbr. Húsnæðisáætlun Reykjavíkur.
- Stuðla að bættri nýtingu svæða innan borgarinnar sbr. markmið aðalskipulagsins um uppbyggingu þéttrar og blandaðrar byggðar.
Deiliskipulagssvæðið afmarkast af Flyðrugranda í norðaustri, Kaplaskjólsvegi í suðaustri, Frostaskjóli í suðvestri og íbúðarbyggð við Fjöru- og Boðagranda í norðvestri. Umrætt svæði verður breytt úr hreinu íþróttasvæði í svæði með íbúðir og þjónustu á jaðrinum en það eykur fjölbreytni.
Tillagan gerir ráð fyrir fjölbreyttri uppbyggingu
- Fjölnota íþróttahús um miðbik svæðis.
- Íþróttaaðstaða í tengslum við félagsheimili. Þar er m.a. gert ráð fyrir að eldra íþróttahús verði fjarlægt og byggt nýtt. Tengibyggingar fyrir búningsherbergi, félagsaðstöðu o.fl. Gert ráð fyrir skrifstofum félagsins og annarri starfsemi t.d. tónlistarskóla.
- Nýr aðalkeppnisvöllur, snúið 90° miðað við núverandi völl, með áhorfendastúkum fyrir um 3.500 áhorfendur á tvær hliðar.
- Við Flyðrugranda og Kaplaskjólsveg eru byggingar fyrir þjónustu, bílastæði og íbúðir á sér lóð.
- Byggingar og mannvirki um 2.600 m² að stærð verða fjarlægð.
- Heildarstærð nýbygginga verður um 51.060 m².
- Núverandi byggingar sem standa áfram eru 5.465 m².
- Heildarstærð mannvirkja verður um 56.525 (A+B rými).
Í norðvesturhorni svæðis eru 74 bílastæði og við aðalaðkomu að austan eru 54 bílastæði og á 1. hæð að Flyðrugranda er einnig gert ráð fyrir bíla- og hjólastæðum.
Byggingareitur íþrótta- og félagsaðstöðu
Innan veggja KR-heimilis hefur farið fram ýmiss konar þjónusta við íbúa hverfisins auk hefðbundinnar íþróttastarfsemi. Má nefna frístundaheimili, tónlistarskóla, tómstundir fyrir aldraða o.fl. Með heildarendurskoðun á skipulaginu þá eru áform um að auka þessa starfsemi til muna.
Afmarkaðir eru nýir byggingareitir austan og vestan við núverandi félagsheimili. Hér er gert ráð fyrir nýjum íþróttasal auk byggingareits fyrir fjölbreyttar tengibyggingar sem tengja núverandi og nýjar byggingar.