Sorphirða í Reykjavík yfir hátíðirnar

Sorphirða

Jól og áramót eru hefðbundinn álagstími hjá starfsfólki sorphirðunnar en unnið verður aukalega á Þorláksmessu og laugardaginn fyrir gamlárskvöld.
Starfsfólk sorphirðu að störfum um vetur.

Jól og áramót eru hefðbundinn álagstími hjá starfsfólki sorphirðunnar. Unnið verður á Þorláksmessu, laugardaginn 23. desember, við að tæma ílát fyrir almennt og lífrænt sorp fyrir jól. Sömuleiðis verður unnið aukalega laugardaginn fyrir gamlársdag.

Enn fremur er lögð áhersla á að tæma pappírs- og plasttunnur fyrir jólin og er sorphirðan nú að störfum í Grafarvogi. Eftir það verður samkvæmt áætlun haldið í Vesturbæ og miðbæ þar sem sorphirðan verður á milli hátíðanna en þá verður einnig unnið við að tæma almennt sorp og lífrænt.

Þar sem aðfangadagur og gamlársdagur falla á sunnudag í ár verður ekki unnið þá daga.

Íbúar geta lagt sitt af mörkum til að flýta fyrir hirðunni þannig hægt verði að þjónusta alla með því að trygga gott aðgengi að tunnum.
 

Hvað þarf að hafa í huga?

  • Moka, salta, sanda - Huga þarf að aðgengi, moka frá tunnum og tryggja að gönguleiðir séu greiðar, hálkuvarðar og með góðri lýsingu.
  • Huga að fyrirstöðum svo sem illa lögðum bílum og framkvæmdum sem geta hindrað aðgengi sorphirðufólks að ílátum.
  • Flokka vel allan úrgang og nýta plássið í tunnunum vel. Yfirfullar tunnur eru ekki tæmdar.
  • Í fjölbýli þarf að huga að því að skipta um tunnur þar sem eru rennur og passa að úrgangur fari ekki fram á gólf.
  • Hægt er að fara með umframsorp á endurvinnslustöðvar Sorpu og flokkað efni á grenndarstöðvar.

Höldum umhverfisvænni jól

Umhverfisvænn jólaundirbúningur hefur mikið að segja og dregur úr úrgangi um hátíðirnar. Það eru fjölmargar leiðir færar til þess að draga úr úrgangi í undirbúningi jólanna og yfir hátíðirnar sjálfar. Mikilvægt er að endurnýta sem mest, forðast einnota hluti sem eru aðeins notaðir í örfáar klukkustundir og sýna nægjusemi.

  • Hvernig á að flokka pakkabönd, jólapappír og jólaseríur? Svarið við því er á Flokkum.is.

Sorphirðudagatal

Minnt er á þjónustu 57 grenndarstöðva í borginni sem eru alltaf opnar. Upplýsingar um hirðudaga, næstu grenndarstöð og stystu leið þangað má finna í sorphirðudagatali á vef Reykjavíkurborgar. Þangað eru líka settar inn sérstakar tilkynningar frá sorphirðunni. Hægt er að fara með alla flokka úrgangs á endurvinnslustöðvar Sorpu.

Takk fyrir að flokka og gleðileg jól!

Takk fyrir að flokka!