Sögur handa öllum - Lestrarhátíð 2015

Skóli og frístund Mannlíf

""

Þann 1. október hefst fjórða Lestrarhátíð í Bókmenntaborg og stendur hún allan mánuðinn með fjölbreyttri og lifandi dagskrá. Hátíðin í ár nefnist Sögur handa öllum og er hún tileinkuð rithöfundinum Svövu Jakobsdóttur og röddum kvenna í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Markmið Lestrarhátíðar er að hvetja fólk á öllum aldri til að lesa, auka líflega umræðu um bókmenntir og tungumál og síðast en ekki síst að vekja athygli á gildi orðlistar í menningaruppeldi og daglegu lífi. Lestrarhátíð er árviss viðburður og októbermánuður því að verða þekktur sem mánuður orðlistar í Reykjavík.

 

Lestrarhátíðin verður sett formlega á blómatorginu í Kringlunni fimmtudaginn 1. október kl. 16. Elsa Yeoman, formaður menningar- og ferðamálaráðs mun setja hátíðiðina auk þess ávarpa Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambandsins og leikstjórinn Tinna Hrafnsdóttir gesti, Silja Aðalsteinsdóttir les úr bók hátíðarinnar, Sögur handa öllum, og kvennakórinn Katla syngur. Það eru því raddir kvenna sem marka upphaf Lestrarhátíðar í ár og þær verða áfram í brennidepli út mánuðinn. Í Kringlunni verður rithöfundur hátíðarinnar nálægur gestum, því textabrot úr verkum Svövu prýða Kringluna í október.

 

Dagskrá hátíðarinnar 

Bókaútgáfan Forlagið gefur út bók hátíðarinnar, Sögur handa öllum, eftir Svövu Jakobsdóttur. Hún kemur út í kilju í ritröðinni Íslensk klassík og hvetjum við alla til að ná sér í eintak og taka þátt í Lestrarhátíð með því að lesa smásögur Svövu sem eru löngu orðnar sígildar í íslenskum bókmenntum. Leikhópurinn Háaloftið frumsýnir leikrit Svövu, Lokaæfingu, í Tjarnarbíói þann 4. október, á afmælisdegi Svövu sem hefði orðið 85 ára þennan dag. Verkið er eitt þekktasta leikverk hennar og var síðast sett á svið í Þjóðleikhúsinu árið 1983. Það er því kærkomið að fá þetta magnaða verk aftur á svið. Aðalhlutverk leika þau Elma Lísa Gunnarsdóttir og Þorsteinn Bachmann en leikstjórn er í höndum Tinnu Hrafnsdóttur.

Í Bókmenntaborginni verður bókmenntamerking til heiðurs Svövu afhjúpuð þann 7. október. Það gerir Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur og mun hún leiða í framhaldinu bókmenntagöngu um slóðir kvenrithöfunda í miðborginni.

Fjölmála rithöfundahópurinn Ós lætur að sér kveða á Lestrarhátíð í ár. Hópurinn opnar sýningu í Borgarbókasafninu í Grófinni þann 3. október og verður með viðburði á fleiri stöðum í mánuðinum, m.a. á Hótel Marina þann 15. október. Borgarbókasafnið tekur virkan þátt í Lestrarhátíð í ár líkt og áður. Bókakaffi í Gerðurbergi verður tileinkað Svövu og Gerður Kristný mætir í bókasafnið í Spönginni í lok mánaðarins og ræðir um smásögur Svövu og þau áhrif sem skrif hennar hafa haft á skáld sem á eftir komu.

Bókmenntaborgin og Borgarbókasafn standa saman að hádegiserindum í Grófarhúsi þar sem litið verður til fortíðar og skoðaður skáldskapur kvenna sem fundist hefur í handritum. Einnig rýnir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir í leslista frá Lestrarfélagi kvenna í Reykjavík, sem starfandi var á síðustu öld. 

Ungskáldin Ásta Fanney Sigurðardóttir og Valgerður Þóroddsdóttir sýna ljóðmyndir í 100 götugluggum í borgarlandinu á sýningu sem þær kalla Skúmaskot. Hún stendur í  viku og þar kanna skáldin samspil ljóða, ljósmynda og borgarinnar á spennandi vegu.

Grunnskólar, leikskólar og frístundaheimili taka að vanda þátt í Lestrarhátíð og fá krakkar að kynnast sögum handa öllum í ólíkum myndum. Lögð verður áhersla á að lesa verk eftir konur, um kvenhetjur, jafnvel kvenofurhetjur. Ömmusögur fá rými á leikskólum og unnið verður með þemað eftir áherslum hvers skóla fyrir sig.

Í október verður hægt að finna póstkort frá Bókmenntaborginni á kaffihúsum í borginni og í Kringlunni. Borgarbúar og aðrir eru hvattir til að senda konunum í lífi sínu kveðju á þessum kortum. Segja má að þetta sé lítil æfing í ritlist í boði Bókmenntaborgarinnar á meðan Lestrarhátíð stendur yfir. 

Heildardagskrá Lestrarhátíðar er aðgegnileg á íslensku og ensku á vef Bókmenntaborgarinnar, www.bokmenntir.is

Lestrarhátíð er grasrótarhátíð sem vex og dafnar frá ári til árs

Markmið Lestrarhátíðar er að hvetja fólk á öllum aldri til að lesa, auka líflega umræðu um bókmenntir og tungumál og síðast en ekki síst að vekja athygli á gildi orðlistar í menningaruppeldi og daglegu lífi. Lestrarhátíð er árviss viðburður og októbermánuður því að verða þekktur sem mánuður orðlistar í Reykjavík. Fjölmargir taka þátt í hátíðinni með beinum og óbeinum hætti ár hvert og fólk nýtir tækifærið til að kíkja í bók og taka þátt í dagskrá sem tengist þema mánaðarins.



Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt í hátíðinni með því að mæta á viðburði, halda sjálfir viðburði, lesa og spjalla um bókmenntir og setja inn örsögur, uppáhalds tilvitnanir  eða mínútumyndir á samfélagsvefina Facebook, Twitter og Instagram með myllumerkinu #lestrarhatid. Úrval þess efnis verður síðan birt á vef Bókmenntaborgarinnar, bokmenntir.is.