No translated content text
Reykjavíkurborg safnar nú frásögnum af afrekum kvenna sem hafa með beinum eða óbeinum hætti haft áhrif á eigið líf eða annarra, tekist á við erfið eða óvenjuleg verkefni eða afrekað eitthvað annað sem gaman væri að segja frá.
Til stendur að setja upp afrekasýningu kvenna á Íslandi sem opnuð verður í Ráðhúsi Reykjavíkur í september. Þar verður gerð grein fyrir framlagi kvenna til íslensks samfélags, persónulegum og pólitískum sigrum, afrekum í hversdagslífi og á opinberum vettvangi. Sýningin verður með fjölbreyttu sniði, notast verður við myndir, texta, hljóð- og myndupptökur og annað það sem kemur afrekunum sem best til skila.
Viðbrögð við áskorun um að senda inn sögur hafa verið afar góð og hafa nú þegar safnast ríflega 80 sögur inn á heimasíðunni www.afrekskonur.is. Dæmi um afrekssögur:
- Katrín Thoroddsen, barnalæknir, f. 1896, d. 1970. Árið 1931 hélt hún fyrirlestur um getnaðarvarnir og fóstureyðingar sem vakti slíka athygli að hún flutti hann tvisvar fyrir húsfylli, einu sinni í útvarpi og gaf hann að lokum út á bók undir heitinu „Frjálsar ástir. Erindi um takmörkun barneigna.“ Hún opnaði þar með á umræðu um gríðarlega viðkvæmt málefni. Nú eru 80 ár síðan Alþingi Íslendinga samþykkti lög sem heimiluðu fóstureyðingar undir ákveðnum kringumstæðum, á undan flestum öðrum löndum, og gáfu læknum heimild til að ráðleggja um meðferð getnaðarvarna. Þetta átti sér stað fjórum árum eftir að Katrín flutti fyrirlesturinn sinn, þar sem meðal annars sagði: „Þá hafa margir, einkum karlmenn, mjög á móti því að konan geti ráðið því, hvort hún verði barnshafandi eða ekki, af þeirri ástæðu að slíkt mundi leiða til jafnréttis karla og kvenna í kynferðismálum.“ Katrín var sannarlega brautryðjandi á þessu sviði og íslenskar konur mega vera henni ákaflega þakklátar.
- Þórey Mjallhvít tekur pláss og kann að endurskilgreina kurteisi. Hún er ein sú fyndnasta, fjölhæfasta og klárasta sem ég þekki. Hún kemur óskráðum andlitsgeiflum og tilfinningum auðveldlega frá sér í teikningum. Textarnir hennar eru jafnvel betri. Hún er hugsjónakona og 100% femínisti.
- Amma mín Guðrún Einarsdóttir kom unglingur til Reykjavíkur til þess að vinna fyrir sér. Borgin var bær og Kaninn ekki enn mættur á svæðið. Þegar ömmu fannst kominn tími til eignaðist hún mann og börn. Afi dó rétt eftir miðja öldina, en amma tók bílpróf, stofnaði fyrirtæki og kom börnum sínum þremur í gegnum háskólanám. Amma var vinkona barna sinna, en aðallega samsæriskona barnabarna sinna og barnabarnabarna.
Átt þú sögu í fórum þínum eða ertu með upplýsingar og gögn sem gætu átt erindi á sýninguna Afrekskonur allar ábendingar eru vel þegnar. Við leitum að sögum og efni á hvaða formi sem er. Ekki er verra ef þú lumar á myndum þá máttu merkja þær #afrekskonur og verða þær notaðar á sýningunni.
Á Menningarnótt verður sett upp sýningin Allskonur! í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Komið hefur verið upp tölvu á gönguás Ráðhússins þar sem gestir og gangandi geta sett inn sögur af afrekskonum. Þá er einnig verið að safna handgerðum blómum frá handverkssnillingum til þess að nota á afrekasýningunni. Áttu handgerð blóm? Ef svo er máttu koma með þau og leggja þau í blómakörfu sem er á gönguásnum.