Söfnuðu 420 þúsund fyrir börnin á Gaza

Skóli og frístund

Drafnarsteinn styrkir UNICEF

Það var dásamleg stund þegar börnin á Drafnarsteini afhentu Ernu Dagnýju Hjaltalín hjá UNICEF 420 þúsund krónur sem starfsmannafélag og foreldrafélag leikskólans höfðu safnað til styrktar börnum á Gasa. Peningunum söfnuðu þau með því að selja boli myndskreytta með sjálfsmyndum barnanna og með ljóðinu Myndin hennar Lísu eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur á bakhliðinni.

Ljóðinu breytt svo allir geti fundið sig í myndlíkingunni

Prentaðir voru 200 bolir og standa vonir til að hægt verði að afhenda aðra góða upphæð á nýju ári þegar allir bolirnir hafa verið seldir. Ljóðinu á bolunum hefur verið breytti í samstarfið við Olgu Guðrúnu til að passa betur við breytta samfélagsmynd. Ljóðlínunni ,,augu svo blá” hefur því verið breytt í ,,brún augu og blá” og ætti að gera að verkum að allir geti samsamað sig myndlíkingunni.

Drafnarsteinn styrkir UNICEF

Er ekki jörðin fyrir alla?

„Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með þróuninni við botni miðjarðarhafs og viljum við sem búum við þau gæði að fá að annast börn sem búa við frelsi og frið leggja baráttunni fyrir friði lið. Að tala fyrir friði og velta því fyrir sér hvernig við ræðum ástandið í heiminum í dag við börnin okkar hefur verið okkur hugleikið. Foreldrafélag skólans ætlar að taka við keflinu og bjóða uppá fræðslustundir um hvernig við ræðum ástandið í heiminum í dag við börnin okkar,“ segir Arnar Dan, deildarstjóri á Trölladyngju

Myndin hennar Lísu. Lag við ljóðið er mikið sungið við leikskólann og spurningunni um það hvort jörðin sé ekki fyrir alla er í brennidepli.

Myndin hennar Lísu

Gult fyrir sól,
grænt fyrir líf,
grátt fyrir þá sem reka menn út í stríð.
Hvítt fyrir börn
sem biðja um frið,
biðja þess eins að mega lifa eins og við.
Er ekki jörðin fyrir alla?

Taktu þér blað,
málaðu á það
mynd þar sem allir eiga öruggan stað.
Brún augu og blá,
hjörtu sem slá,
hendur sem fegnar halda frelsinu á.
Þá verður jörðin fyrir alla.