Sleppum nöglunum í Reykjavík

Samgöngur Umhverfi

Sleppum nöglunum 2023

Það er ekki bannað að nota nagladekk frá 1. nóvember til 15. apríl árlega en það er óæskilegt á götum borgarinnar. Reykjavíkurborg hvetur því ökumenn til að hugsa sig tvisvar um áður en nagladekk fara undir bílinn og leita fremur að góðum vetrardekkjum.

Ónegld dekk fá háa einkunn á prófum

Í vetrardekkjakönnun sem unnin er af NAF í Noregi, sem er systurfélag FÍB á Íslandi, hefur komið fram að ónegld vetrardekk eru fullgildur kostur með tilliti til aksturseiginleika, hraða (grip), hemlunar, hávaða, rásfestu og aksturstilfinningar. Fjórar tegundir af naglalausum dekkjum skora frá 83-89 af 100 stigum í könnuninni. Það eru Continental VikingContact 7, Michelin X-Ice North 4, Goodyear UltraGrip Arctic 2 og Michelin X-Ice Snow. 

Ókostir nagladekkja í Reykjavík

Ókostir fylgja nagladekkjum, þau slíta malbiki margfalt meira en naglalaus vetrardekk og flýta fyrir djúpum raufum í malbikið sem getur skapað hættu. Nagladekk skapa hávaða sem hægt væri að koma í veg fyrir með því að velja góð vetrardekk í staðinn. Nagladekk auka einnig eldsneytiskostnað bifreiða.

Mikilvægt er því að draga úr hlutfalli slíkra nagladekkja á götum borgarinnar, því þau valda svifryki sem leggst í öndunarfæri og lungu fólks.

Dýpt mynsturs í hjólbörðum hefur áhrif á hversu gott grip þeirra er. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja er krafist þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða. Það dugar mjög vel í Reykjavík.

Nokkrar staðreyndir

  • Bíll á nagladekkjum slítur malbiki og myndar svifryk allt að 40 sinnum hraðar en bíll á ónegldum vetrardekkjum. Sleppum nöglunum!
  • Allt að 67 ótímabær andlát árlega má rekja til svifryks. Nagladekkjanotkun vegur einna þyngst í myndun þess. Sleppum nöglunum!

Það liggur því í loftinu að sleppa nöglunum.